Ferguson: Metjöfnunin sýnir þroska

Leikmenn Manchester United fagna Antonio Valencia eftir að hann skoraði …
Leikmenn Manchester United fagna Antonio Valencia eftir að hann skoraði sigurmarkið í Moskvu í gær. Reuters

Manchester United jafnaði í gærkvöld met Ajax í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu með sigrinum á CSKA í Moskvu en þetta var fjórtándi útileikur liðsins í röð í keppninni án taps. Alex Ferguson segir að þetta sé mikið þroskamerki á sínu liði.

„Við eigum að vera mjög stoltir af þessum árangri á útivelli. Það er ekki auðvelt að spila úti í Evrópukeppninni og við höfum sótt heim mörg frábær lið á undanförnum árum. Ég tel að þetta sýni hve þroskað liðið er orðið," sagði Ferguson við BBC.

„Það þarf að spila á ákveðinn hátt til að ná árangri á útivelli í Evrópukeppni og ég held að þið hafið séð það í leik okkar gegn CSKA. Við vorum þolinmóðir og héldum boltanum vel, og ég tel að það hafi verið lykilatriðið. Við erum mjög ánægðir með okkar frammistöðu. Nú erum við komnir með 9 stig en ég hef alltaf sagt að það þurfi 10 stig til að fara áfram. Við eigum heimaleik gegn CSKA eftir tvær vikur og vonandi tryggjum við okkur þá áframhald í keppninni," sagði Ferguson.

Hann yppti bara öxlum þegar hann var spurður um gervigrasið í Moskvu, enda hafði Ferguson sagt fyrir leikinn að það skipti engu máli, og ætti bara að henta sínu liði vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert