Versti skellur Everton í Evrópuleik

Tony Hibbert hjá Everton og Javier Saviola hjá Benfica eigast …
Tony Hibbert hjá Everton og Javier Saviola hjá Benfica eigast við í leiknum í kvöld. Reuters

Portúgalska liðið Benfica lék enska liðið Everton heldur betur grátt í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu í kvöld og gjörsigraði það, 5:0, í Lissabon. Þetta er versta tap Everton í Evrópuleik frá upphafi.

Evertonmenn eiga sér það til málsbóta að þá vantaði nánast allt byrjunarlið sitt en 11 leikmenn voru fjarverandi vegna meiðsla  eða voru ekki gjaldgengir í keppninni. Þar á meðal voru nýjustu leikmenn liðsins, Johnny Heitinga og Lucas Neill sem ekki voru orðnir löglegir.

Þá vantaði Leighton Baines, Joseph Yobo, Phil Jagielka, Leon Osman, Phil Neville, Mikel Arteta, Steven Pienaar, Victor Anichebe og James Vaughan í lið Everton.

Markvörður Benfica, Julio Cesar, þurfti ekki að verja skot í leiknum og yfirburðir Portúgalanna voru miklir. Javier Saviola og Oscar Cardozo gerðu tvö mörk hvor og Luisao eitt.

Everton og Benfica eru nú jöfn og efst í I-riðli keppninnar með 6 stig hvort.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert