Hughton verður stjóri Newcastle

Chris Hughton.
Chris Hughton. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United tilkynnti í kvöld að Chris Hughton yrði knattspyrnustjóri þar á bæ til frambúðar en hann hefur gegnt starfinu til bráðabirgða. Þá hefur eigandinn Mike Ashley tilkynnt að Newcastle sé ekki lengur til sölu.

Hughton kom til Newcastle sem þjálfari snemmar árs 2008 og var tvívegis á síðasta tímabili fenginn til að stýra liðinu tímabundið en þáverandi knattspyrnustjóri, Joe Kinnear, þurfti að taka sér frá vegna veikinda. Newcastle féll úr úrvalsdeildinni í vor eftir að Alan Shearer hafði tekið starfið að sér tímabundið á lokasprettinum.

Hughton var síðan falið að stjórna liðinu í sumar, þar til varanleg lausn fyndist. Undir hans stjórn hefur liðið leikið vel í 1. deildinni og trónir nú þar á toppnum.

„Það er stór stund í mínu lífi að vera ráðinn knattspyrnustjóri hjá þessu stórkostlega félagi. Ég mun leggja allt mitt í sölurnar til þess að koma því aftur uppí úrvalsdeildina í fyrstu tilraun," sagði Hughton á vef Newcastle í kvöld.

Hann er fimmtugur að aldri og lék á sínum 53 landsleiki fyrir Írland en  þrettán árum af sextán sem atvinnumaður varði hann sem leikmaður Tottenham. Hann spilaði með West Ham í tvö ár og Brentford í eitt áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1993.

Eftir það var hann þjálfari hjá Tottenham í 14 ár og á þeim tíma leysti hann stöðu knattspyrnustjóra til bráðabirgða í tvígang. Eftir að hafa starfað með níu knattspyrnustjórum Tottenham var hann rekinn þaðan með þeim tíunda, Martin Jol, í október 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka