Wenger: Þið snúið útúr orðum mínum

Arsene Wenger er ekki sáttur við ensku fjölmiðlana þessa dagana.
Arsene Wenger er ekki sáttur við ensku fjölmiðlana þessa dagana. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur sent enskum fjölmiðlum tóninn og sakar þá um að taka orð sín á blaðamannafundum að undanförnu úr samhengi.

Meðal þess sem haft var eftir Wenger að loknum leiknum gegn Chelsea á sunnudaginn, þar sem lið hans tapaði 0:2, var að Arsenal væri með betra lið en Chelsea. Margir hafa svarað honum,  m.a. Michael Ballack, miðjumaður Chelsea, sem sagði í gær að Wenger væri  bara tapsár.

Wenger sagði við Sky Sports í dag að ummæli sín á blaðamannafundinum eftir leikinn hefðu verið rangtúlkuð.

„Ég vil taka fram að ég hrósaði liði Chelsea mjög mikið. Mér finnst mjög ósanngjarnt að þið fjölmiðlamennirnir grípið orð og orð sem ég segi og raðið þeim upp í von um að úr því verið stórfrétt. Þetta gerðuð þið eftir leikinn við Aston Villa og aftur eftir leikinn við Chelsea. Ef þið farið yfir það sem ég segi á blaðamannafundunum, þá sjáið þið að ég er jákvæður í garð mótherjanna. Ég gæti sem best bara þagað, ef þið viljið það frekar," sagði Wenger.

„Ég er búinn að vera svo lengi í Englandi að ég veit að ef maður vinnur, getur maður sagt það sem manni sýnist. Ég reyni að leggja kalt mat á hlutina og átta mig á réttu og röngu," sagði Wenger.

Hann ítrekaði að lið sitt væri ekki úr leik í baráttunni um meistaratitilinn. „Það skiptir mestu máli að vinna næsta leik, og svo sjáum við til. Það er nóg eftir enn þrettán leikir og 39 stig í boði. Ef maður trúir ekki á hlutina, gerist ekki neitt, og ef maður horfir á leikina sem eftir eru, er vel hægt að sjá okkar möguleika," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert