Rooney með tvö í sigri á San Siro

Alessandro Nesta, varnarmaður AC Milan, reynir að stöðva Park Ji-Sung, …
Alessandro Nesta, varnarmaður AC Milan, reynir að stöðva Park Ji-Sung, leikmann Man.Utd, í leiknum í kvöld. Reuters

Manchester United lagði AC Milan að velli, 3:2, í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á San Siro leikvanginum í Mílanóborg í kvöld. Þetta var fyrri viðureign liðanna. Wayne Rooney skoraði tvö marka United, í sínum 50. meistaradeildarleik. 

AC Milan náði forystunni strax á 3. mínútu. David Beckham tók aukaspyrnu og sendi boltann fyrir markið. Patrice Evra mistókst að koma boltanum í burtu, Ronaldinho fékk hann rétt innan vítateigs og skoraði með skoti í varnarmann og inn, 1:0.

Ítalirnir fengu færi til að bæta við mörkum en það var hinsvegar United sem jafnaði á 36. mínútu. Darren Fletcher sendi boltann fyrir mark AC Milan frá hægri, Paul Scholes ætlaði að skjóta viðstöðulaust með hægri, hitti ekki boltann, sem fór hinsvegar í vinstri fótlegg hans, þaðan í stöngina og inn, óverjandi fyrir Dida í markinu, 1:1.

Luis Valencia kom inná fyrir Nani á 66. mínútu. Hans fyrsta verk var að senda glæsilega fyrir mark AC Milan frá hægri og þar var fyrir Wayne Rooney sem skoraði með fallegum skalla, 1:2.

Og Rooney var aftur á ferðinni á 72. mínútu. Darren Fletcher lyftir þá boltanum innfyrir vörn AC Milan þar sem Rooney kom á ferðinni og skoraði annað fallegt skallamark, 1:3.

Clarence Seedorf kom inná sem varamaður fyrir Beckham hjá AC Milan og hann náði að skora með flottri hælspyrnu á 84. mínútu eftir sendingu frá Ronaldinho, 2:3.

Michael Carrick, miðjumaður Manchester United, fékk sitt annað gula spjald á þriðju mínútu í uppbótartíma. Hann var þar með rekinn af velli og verður í banni í seinni leiknum á Old Trafford.

Liðin voru þannig skipuð:

 AC Milan: Dida, Bonera, Nesta, Thiago Silva, Antonini, Beckham, Pirlo, Ambrosini, Ronaldinho, Alexandre Pato, Huntelaar.
Varamenn: Abbiati, Gattuso, Inzaghi, Seedorf, Flamini, Favalli, Abate.

Man Utd: Van der Sar, Rafael Da Silva, Ferdinand, Jonathan Evans, Evra, Nani, Carrick, Scholes, Fletcher, Park, Rooney.
Varamenn: Kuszczak, Neville, Brown, Owen, Berbatov, Valencia, Gibson.

Lyon - Real Madrid 1:0 (leik lokið)

1:0 Jean Makoun kom Lyon yfir á 47. mínútu.

 Lyon: Lloris, Reveillere, Cris, Boumsong, Cissokho, Toulalan, Govou, Makoun, Pjanic, Delgado, Lopez.
Varamenn: Vercoutre, Källström, Michel Bastos, Ederson, Gomis, Gassama, Gonalons.
Real Madrid: Casillas, Arbeloa, Sergio Ramos, Albiol, Marcelo, Mahamadou Diarra, Alonso, Granero, Kaká, Higuain, Ronaldo.
Varamenn: Adan, Gago, Raúl, Lassana Diarra, Benzema, Drenthe, Garay.

Ronaldinho fagnar eftir að hafa komið AC Milan yfir en …
Ronaldinho fagnar eftir að hafa komið AC Milan yfir en Nani er ekki eins kátur. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert