Everton lagði Manchester United

Dinijar Biljaletdinov, til hægri, fagnar ásamt Leon Osman eftir að …
Dinijar Biljaletdinov, til hægri, fagnar ásamt Leon Osman eftir að hafa jafnað, 1:1. Reuters

Everton vann langþráðan sigur á Manchester United, 3:1, í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í dag.

Þetta er aðeins annar sigur Everton á Manchester United í síðustu 30 viðureignum liðanna í deildinni, á undanförnum fimmtán árum.

United er þar með áfram í 2. sæti deildarinnar með 57 stig, einu stigi á eftir Chelsea sem sækir Wolves heim síðar í dag. Everton fór uppí 8. sæti með 38 stig.

Manchester United náði forystunni á 16. mínútu þegar Luis Valencia sendi boltann fyrir mark Everton frá hægri, Dimitar Berbatov tók við honum rétt utan markteigs og hamraði hann í þverslána og inn, 0:1.

Evertonmenn voru fljótir að jafna því á 18. mínútu skoraði Dinijar Biljaletdinov með miklum þrumufleyg, 1:1, eftir að Jonny Evans miðvörður United skallaði boltann til hans.

Everton náði forystunni á 76. mínútu. Steven Pienaar komst að endamörkum vinstra megin og sendi fyrir markið þar sem varamaðurinn Dan Gosling skoraði með viðstöðulausu skoti, 2:1.

Það var síðan á 90. mínútu leiksins sem varamaðurinn Jack Rodwell fékk boltann frá Mikel Arteta hægra megin í vítateig United og afgreiddi hann laglega í markhornið fjær, 3:1.

Lið Everton: Howard - P. Neville, Heitinga, Distin, Baines - Donovan, Osman, Arteta, Biljaletdinov, Pienaar - Saha.
Varamenn: Nash, Yobo, Vaughan, Gosling, Yakubu, Rodwell, Coleman.

Lið Man.Utd: Van der Sar - G. Neville, Brown, Evans, Evra - Valencia, Fletcher, Carrick, Park - Rooney, Berbatov.
Varamenn: Foster, Owen, Vidic, Scholes, Rafael, Obertan, Gibson.

Nokkrar staðreyndir í upphafi leiks:

* Everton hefur aðeins unnið United einu sinni í úrvalsdeildinni á undanförnum 15 árum, í 29 leikjum, og United hefur unnið sex af síðustu sjö viðureignum liðanna. Samtals hefur Everton unnið 3 en United 27 af viðureignum liðanna í deildinni frá stofnun hennar 1992.

* Everton hefur unnið fjóra síðustu heimaleiki sína í deildinni og aðeins tapað einu sinni í síðustu 11 deildaleikjum sínum, gegn Liverpool.

* United er ósigrað í síðustu átta leikjum sínum í deildinni.

* Wayne Rooney leikur í dag sinn 250. leik í úrvalsdeildinni en hann spilaði 67 leiki í deildinni fyrir Everton áður en hann fór 18 ára gamall til United, fyrir rúmar 25 milljónir punda.

* Louis Saha hefur skorað 13 mörk fyrir Everton í deildinni í vetur, og leikur líka gegn sínu gamla félagi. Wayne Rooney hefur skorað 21 mark fyrir United.

* Bræðurnir Phil Neville og Gary Neville heilsuðust í upphafi leiks sem fyrirliðar liðanna.

Landon Donovan hjá Everton í baráttu við Gary Neville og …
Landon Donovan hjá Everton í baráttu við Gary Neville og Darren Fletcher í leiknum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert