Benfica lagði 10 leikmenn Liverpool

Oscar Cardozo skoraði bæði mörk Benfica úr vítaspyrnum og fagnar …
Oscar Cardozo skoraði bæði mörk Benfica úr vítaspyrnum og fagnar hér annarri þeirra. Reuters

Benfica sigraði Liverpool 2:1, í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu í kvöld. Liverpool var manni færra frá 30. mínútu. Fulham sigraði Wolfsburg frá Þýskalandi, 2:1, í London.

Daniel Agger kom Liverpool yfir en síðan var Babel vísað af velli. Oscar Cardozo tryggði Benfica sigur með tveimur mörkum úr vítaspyrnum í síðari hálfleiknum.

Bobby Zamora og Damien Duff komu Fulham í 2:0 gegn þýsku meisturunum en Alexander Madlung minnkaði muninn í 2:1 undir lok leiksins.

Önnur úrslit urðu þau að Hamburger SV vann Standard Liege, 2:1, í Þýskalandi og spænsku liðin Valencia og Atlético Madrid skildu jöfn, 2:2.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. mín. Flautað af í Lissabon. Benfica sigrar, 2:1, og liðin mætast aftur á Anfield í næstu viku. Útimarkið getur reynst Liverpool dýrmætt en þar verða Ryan Babel og Emiliano Insua báðir í leikbanni. Babel var rekinn útaf á 30. mínútu í kvöld og Insua fékk sitt annað gula spjald í keppninni.

90. mín. Flautað af í London þar sem Fulham vinnur sigur á þýsku meisturunum Wolfsburg, 2:1.

85. mín. Wolfsburg nær að skora gegn Fulham í London, mark sem kann að reynast dýrmætt. Alexander Madlung er þar á ferð, skalli eftir hornspyrnu, 2:1.

78. mín. Benfica fær aðra vítaspyrnu, nú fór boltinn í höndina á Jamie Carragher. Oscar Cardozo skorar öðru sinni, 2:1 fyrir Benfica.

76. mín. Fernando Torres fær dauðafæri til að koma Liverpool yfir úr skyndisókn eftir þunga pressu Portúgalanna. Hann sleppur einn gegn markverðinum, rennir boltanum framhjá honum en líka framhjá markinu.

59. mín. Enn gleðjast menn á Craven Cottage í London. Nú er Fulham komið í 2:0 gegn Wolfsburg. Damien Duff skoraði í þetta sinn, með föstu skoti eftir að Zamora renndi boltanum til hans.

58. mín. Oscar Cardozo þrumar í stöngina á marki Liverpool úr aukaspyrnu. Í kjölfarið brýtur Insua á Di Maria. Vítaspyrna og Oscar Cardozo jafnar metin, 1:1.

56. mín. Fulham tekur forystuna gegn Wolfsburg í London. Það er Bobby Zamora sem skorar markið með glæsilegu skoti frá vítateig, 1:0. Ævintýrið heldur áfram.

45. mín. Flautað til hálfleiks í Lissabon og í London. Tíu leikmenn Liverpool eru 1:0 yfir gegn Benfica en staðan er 0:0 hjá Fulham og Wolfsburg. Hjá Liverpool er Emiliano Insua kominn í bann fyrir seinni leik liðanna, eins og Ryan Babel, en Insua fékk gult spjald skömmu fyrir hlé, sitt annað í keppninni.

37. mín. Fernando Torres skorar fyrir Liverpool en markið er dæmt af vegna rangstöðu á Dirk Kuyt sem var fyrir innan vörnina þegar tekin var aukaspyrna og boltinn sendur fyrir markið. Kuyt hefur væntanlega verið talinn hafa haft áhrif á leikinn.

30. mín. Ryan Babel hjá Liverpool fær rauða spjaldið og enska liðið verður því væntanlega manni færra í 60 mínútur. Luisao braut gróflega á Fernando Torres og fékk gula spjaldið fyrir það. Babel reiddist og setti hönd í andlit Luisao, að því er virtist með það að tilgangi að segja honum að þegja! Jonas Eriksson dómari frá Svíþjóð rak Babel umsvifalaust útaf en Luisao slapp með gult spjald fyrir brotið!

11. mín. Miðvörðurinn Daniel Agger kemur Liverpool yfir í Lissabon gegn Benfica. Steven Gerrard er felldur rétt fyrir utan vítateiginn vinstra megin. Hann tekur aukaspyrnuna og rennir boltanum þvert inní teiginn á Danann sem skorar með lúmskri en fastri hælspyrnu, 0:1.

Liðin eru þannig skipuð í kvöld:

Benfica: Julio Cesar, Maxi Pereira, Luisao, David Luiz, Fabio Coentrao, Javi Garcia, Ramires, Carlos Martins, Di Maria, Aimar, Cardozo.
Varamenn: Moreira, Airton, Ruben Amorim, Nuno Gomes, Luis Filipe, Sidnei, Alan Kardec.
Liverpool: Reina, Johnson, Agger, Carragher, Insua, Lucas, Mascherano, Kuyt, Gerrard, Babel, Torres.
Varamenn: Cavalieri, Benayoun, Kyrgiakos, Ngog, Plessis, El Zhar, Pacheco.

Fulham: Schwarzer, Davies, Hughes, Hangeland, Konchesky, Duff, Murphy, Etuhu, Dempsey, Gera, Zamora.
Varamenn: Zuberbuhler, Baird, Nevland, Riise, Smalling, Greening, Elm.
Wolfsburg: Benaglio, Pekarik, Madlung, Barzagli, Schafer, Riether, Josue, Gentner, Misimovic, Dzeko, Grafite.
Varamenn: Lenz, Simunek, Martins, Hasebe, Johnson, Dejagah, Rever.

Damien Duff fagnar marki sínu fyrir Fulham ásamt félögum sínum.
Damien Duff fagnar marki sínu fyrir Fulham ásamt félögum sínum. Reuters
Jonas Eriksson dómari sýnir Ryan Babel rauða spjaldið.
Jonas Eriksson dómari sýnir Ryan Babel rauða spjaldið. Reuters
Steven Gerrard og Fernando Torres fagna Daniel Agger eftir að …
Steven Gerrard og Fernando Torres fagna Daniel Agger eftir að sá síðastnefndi kom Liverpool yfir í Lissabon. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert