Neville: Getum ekki notað fjarveru Rooney sem afsökun

Gary Neville fagnar sigri gegn Liverpool á dögunum.
Gary Neville fagnar sigri gegn Liverpool á dögunum. Reuters

Gary Neville fyrirliði Manchester United segir að liðið geti ekki notað fjarveru Wayne Rooney sem afsökun tapi liðið gegn Chelsea en toppliðin tvö í ensku úrvalsdeildinni leiða saman hesta sína á Old Trafford í hádeginu á morgun.

Neville er meðvitaður um hversu þýðingarmikill Rooney er liði Manchester United en hann er þess viss um að liðið geti spjarað sig án framherjans frábæra.

,,Við viljum ekki hafa meiðsli í okkar herbúðum og síst hjá okkar bestu leikmönnum. Það verður mikill missir fyrir okkur að vera án Rooney því hann hefur verið í frábæru formi. Við höfum verið án lykilmanna í stórleikjum áður og samt unnið þá og við höfum farið í úrslitaleiki án tveggja eða þriggja frábærra leikmanna og höfum komist í gegnum það,“ segir Neville.

,,Chelsea saknar leikmanna. Það er án Michael Essien og Asley Cole. Það lenda öll lið í meiðslum og leikbönnum og liðin verða bara að takast á við það. Þetta er stórleikur og við gerum okkur grein fyrir því að Chelsea hefur verið á góðu skriði í síðustu leikjum. Það er til mikils að vinna því liðið sem hefur betur á morgun stendur vel að vígi þó svo að úrslitin í titilbaráttunni ráðist ekki í þessum leik.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert