Ferguson með leyfi til að kaupa Özil

Özil náði í bronsverðlaun á HM í sumar með þýska …
Özil náði í bronsverðlaun á HM í sumar með þýska landsliðinu. Reuters

Tíðar og misvísandi fréttir berast þessa dagana af þýska knattspyrnumanninum Mesut Özil og framtíð hans en eftir að hafa slegið í gegn á HM í sumar er talið fullvíst að hann verði seldur frá Werder Bremen áður en ágústmánuður er allur.

Í dag segir í Manchester Evening News að Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hafi fengið leyfi til að freista þess að kaupa kappann. Blaðið hefur sannað í gegnum tíðina að það er vel inni í málum hjá enska félaginu.

Ferguson fór sérstaka ferð til að sjá Fulham og Werder Bremen leika æfingaleik um síðustu helgi og er talið fullvíst að það hafi hann gert til að sjá Özil spila.

Özil er hins vegar afar eftirsóttur og eru Chelsea og Barcelona einnig á höttunum eftir þessum sóknarsinnaða miðjumanni. Svo langt var gengið í spænskum fjölmiðlum í vikunni að Özil var sagður hafa náð samkomulagi við Börsunga um kaup og kjör. Þær fregnir hafa verið bornar á bak aftur.

Özil er talinn falur fyrir aðeins 15 milljónir punda enda rennur samningur hans við þýska félagið út eftir komandi leiktíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert