Ferguson neitar enn að ræða við BBC

Alex Ferguson hefur ekki talað við BBC í sex ár.
Alex Ferguson hefur ekki talað við BBC í sex ár. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ekki talað við BBC eftir leiki liðsins í sex ár. Engin breyting varð á því í gær eins og vonast hafði verið eftir og nú stefnir í að stjórn úrvalsdeildarinnar taki málið sérstaklega fyrir.

Samkvæmt reglum deildarinnar er Ferguson og öðrum knattspyrnustjórum skylt að ræða við rétthafa útsendinga að leikjum loknum. Ferguson hefur hinsvegar neitað að koma í viðtöl hjá BBC frá árinu 2004 þegar stöðin birti heimildarþátt um spillingu í enska fótboltanum og þátt umboðsmanna í henni en þar kom Jason, sonur Fergusons, talsvertvið sögu.

„Úrvalsdeildin lýsir yfir vonbrigðum með að BBC og Manchester United hafi enn ekki náð að leysa mál Alex Fergusons  varðandi viðtöl eftir leiki. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með málinu og reynum að leysa það eftir mætti," sagði í yfirlýsingu frá stjórn úrvalsdeildarinnar í gær.

Yfirmenn BBC vísuðu málinu alferið á deildina og Manchester United. Talsmaður United sagði að félagið styddi ákvörðun stjórans en aðstoðarmaður hans, Mike Phelan, væri til staðar til að veita viðtöl og ræða leikina ef óskað væri eftir.

BBC hefur í staðinn vitnað í þau viðtöl sem tekin eru við Ferguson af sjónvarpsstöð Manchester United, MUTV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert