Þrenna Crouch og Tottenham í Meistaradeildina

Peter Crouch fagnar einu markanna ásamt félögum sínum í Tottenham.
Peter Crouch fagnar einu markanna ásamt félögum sínum í Tottenham. Reuters

Peter Crouch, enski landsliðsframherjinn í knattspyrnu, skoraði þrennu fyrir Tottenham í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu með 4:0 sigri á Young Boys frá Sviss.

Young Boys vann fyrri leikinn í Bern, 3:2, eftir að hafa komist í 3:0 á fyrsta hálftímanum. Tottenham þurfti því minnst eins marks sigur í kvöld en Crouch róaði taugar stuðningsmanna félagsins með marki strax á 5. mínútu.

Jermain Defoe kom Tottenham í 2:0 eftir hálftíma leik og Crouch bætti við marki eftir 60 mínútur, 3:0. Hann fullkomnaði loks þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 78. mínútu, 4:0, og Tottenham vann því samanlagt 6:3.

Þar með verða fjögur ensk lið í pottinum síðdegis á morgun þegar dregið verður í riðla Meistaradeildarinnar en Chelsea, Manchester United og Arsenal fóru beint þangað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert