Hermann í landsliðshópnum gegn Portúgal

Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hermann Hreiðarsson, varnarmaðurinn reyndi og fyrirliði landsliðsins til skamms tíma, verður í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir leikinn gegn Portúgal en hópurinn verður tilkynntur eftir hádegið.

Mbl.is hefur þetta eftir áreiðanlegum heimildum.

Hermann hefur verið frá keppni í rúmlega hálft ár síðan hann sleit hásin í leik með Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni í mars. Hann hefur æft af krafti undanfarið og væri búinn að spila með varaliði Portsmouth ef það væri til en það var lagt niður í sumar vegna fjárhagsörðugleika félagsins.

Vegna meiðslanna hefur Hermann ekkert spilað með landsliðinu á þessu ári, og missti líka af verkefnum þess síðasta haust. Síðasti landsleikur hans var gegn Hollendingum á Laugardalsvellinum í júní 2009. 

Hermann er annar leikjahæsti landsliðsmaður Íslands með 85 landsleiki. Hann mun æfa með landsliðshópnum og síðan kemur í ljós hvort Ólafur Jóhannesson þjálfari metur að hann sé tilbúinn í verkefnið þegar þar að kemur en landsleikurinn við Portúgal fer fram á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið í næstu viku, 12. október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert