Wenger: Ég hef líka logið

Alex Ferguson og Arsene Wenger eru miklir keppinautar en líka …
Alex Ferguson og Arsene Wenger eru miklir keppinautar en líka sagðir mestu mátar. Báðir hafa líka hagrætt sannleikanum. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, viðurkennir að hafa gert eins og Alex Ferguson hjá Manchester United og logið til um meiðsli leikmanna sinna í samtölum við fréttamenn. Hann hafi þó gætt þess að viðkomandi leikmaður vissi hvað yrði sagt um hann.

Mikið hefur verið deilt á Ferguson síðustu daga eftir að uppvíst varð að hann hefði sagt ósatt um ástandið á Wayne Rooney í haust. Ferguson sagði fjölmiðlum að Rooney væri meiddur á ökkla. Rooney sagði hinsvegar eftir leik Englands og Svartfjallalands á þriðjudag að það hefði ekkert verið að sér í ökklanum í allt haust.

„Ef þið spyrjið mig hvort ég hafi logið að fréttamönnum til að vernda leikmann, þá verð ég að viðurkenna það. Mér leið ekki vel með það en gerði það með hreinni samvisku því ástæðan var réttmæt. En í slíkum tilfellum tala ég við leikmanninn fyrirfram og segi honum hvaða svör ég muni gefa um hann," sagði Wenger á fréttamannafundi sínum í dag.

Hann vildi hinsvegar ekki fara lengra útí þessar útskýringar. „Ef ég ætti að svara ykkur því hvers vegna ég sagði ósatt, yrði ég að segja til um hvernig það hefði verið og þá væri ég  búinn að opinbera hver leikmaðurinn væri," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert