Man.Utd selur ekki Rooney í janúar

Wayne Rooney og Alex Ferguson virðast ekki miklir mátar þessa …
Wayne Rooney og Alex Ferguson virðast ekki miklir mátar þessa dagana. Reuters

Manchester United hefur gefið frá sér yfirlýsingu um að Wayne Rooney verði ekki seldur frá félaginu í janúar. Síðustu tvo daga hafa ensk blöð verið full af fréttum um að hann vilji ekki semja að nýju við United, sem þar með þurfi að selja hann í janúar til að fá fyrir hann gott verð.

Yfirlýsingin kemur nokkuð á óvart því hjá Manchester United neita menn yfirleitt alveg að ræða vangaveltur um kaup og sölur á leikmönnum.

Manchester Evening News segir að samkvæmt heimildarmönnum sem séu nánir Rooney, ætli hann ekki að skrifa undir framlengingu á samningnum við félagið sem honum hefur verið boðin. Sá samningur myndi, að sögn blaðsins, gera Rooney að launahæsta leikmanni félagsins frá upphafi og lyfta honum uppfyrir Rio Ferdinand á þeim lista.

Samskipti Rooneys og Alex Fergusons knattspyrnustjóra hafa versnað undanfarið og það kom á óvart síðasta þriðjudagskvöld þegar Rooney gaf til kynna að Ferguson hefði logið til um að hann væri meiddur á ökkla fyrr í haust.

Chelsea, Real Madrid, Barcelona og nágrannarnir í Manchester City eru öll sögð í startholunum og séu tilbúin til að gera United tilboð í Rooney.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert