Bretar æfir yfir að missa HM

Bretar eru æfir yfir úrslitum í atkvæðagreiðslu framkvæmdastjórnar Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA; í dag þegar ákveðið var að Rússar skuli halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2018. Bandaríkjaforseti sagði að FIFA hefði tekið ranga ákvörðun um HM árið 2022 en þá fer mótið fram í Katar. 

Valið var á milli Breta, Rússa, Portúgals og Spánar og Hollands og Belgíu þegar ákveða þurfti hvar HM árið 2018 fer fram. Bretar féllu út í fyrstu umferð atkvæðagreiðslunnar og fengu aðeins tvö atkvæði.

Breska blaðið Daily Telegraph hefur eftir Andy Anson, sem skipulagði umsókn Breta, að framkvæmdastjórnarmenn hefðu svikið loforð, sem þeir hefðu gefið í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. 

Bretar lögðu  mikið undir og David Cameron, forsætisráðherra, Vilhjálmur prins og knattspyrnumaðurinn David Beckham voru allir í Zürich í Sviss þar þegar atkvæðagreiðsla FIFA fór fram. 

Cameron segir við blaðið að allir hefðu verið sammála um að Bretar hefðu boðið upp á bestu tæknilausnirnar og áhugi sé gríðarlegur á knattspyrnu á Bretlandi.  Það hefði hins vegar ekki nægt.

Hann sagði í kvöldverðarboði í kvöld, að Vilhjálmur prins hefði átt marga fundi með framkvæmdastjórnarmönnum og reynt að fá þá á band Breta.  

„Ég hitti Vilhjálm þegar hann kom út af einum slíkum fundi og sagði: „Hvernig gekk?" Hann sagði að fundurinn hefði gengið afar vel. „Ég sagði, hvernig fórstu að því og hvað bauðstu honum? Bauðstu honum í brúðkaupið þitt? Og hann sagði: Forsætisráðherra, ég held að ég hafi meira að segja boðist til að giftast honum."    

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, lýsti í kvöld vonbrigðum með að Bandaríkin skyldu ekki fá að halda keppnina árið 2022.   Hann sagðist telja, að FIFA hefði tekið ranga ákvörðun með því að samþykkja tilboð Katar en bætti við, að bandaríska liðið myndi standa sig vel þar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert