Pulis: Eiður fer hvergi

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. www.stokecityfc.com

Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke City hefur tjáð þeim Eið Smára Guðjohnsen og Tyrkjanum Tuncay að þeir geti gleymt því að fara frá félaginu í janúar en báðir eru leikmennirnir ósáttir við stöðu sína í liðinu.

Eiður Smári er í orðsins fyllstu merkingu úti í kuldanum hjá Pulis en hann hefur ekkert komið við sögu í sjö síðustu leikjum liðsins. Enska 1. deildarliðið Reading hefur haft áhuga á fá Eið að láni og bæði Wigan og Blackburn hafa borið víurnar í Tuncay.

,,Ég var spurður að því á dögunum hvort ég ætlaði ekki að tefla Eiði fram? En hver á að fara út úr liðinu. Ricardo Fuller og Kenwyne Jones hafa staðið sig einstaklega vel og þeir Tuncay og Jon Walters hafa staðið sig vel,“ segir Pulis við enska blaðið The Sentinel.

,,Ég þarf á öllum leikmönnum að halda. Það fara að koma upp meiðsli í hópnum og menn að fara að detta í leikbann,“ sagði Pulis eftir jafntefli sinna manna gegn Wigan en Stoke er taplaust í fimm síðustu leikjum sínum, hefur unnið þrjá leiki og gert tvö jafntefli.

Pulis hefur ákveðið að kalla á Danny Pugh og Michael Tonge úr láni frá Preston áður en jólatörnin hefst en Stoke leikur fjóra leiki á 10 dögum í kringum hátíðarnar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert