Fabregas: Vantar samræmi í dómgæslu

Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal.
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal. Reuters

Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, kveðst ekki botna í því hversvegna lið hans fékk ekki vítaspyrnu á lokamínútunum gegn Wigan í gærkvöld fyrir samskonar atvik og hann fékk á sig vítaspyrnu í leik liðsins fyrir skömmu.

Arsenal fékk aukaspyrnu rétt utan vítateigs í uppbótartíma leiksins. Samir Nasri skaut og boltinn fór beint í höndina á James McArthur, leikmanni Wigan, sem lyfti henni yfir höfuð sér. Arsenal fékk aðeins hornspyrnu og lokatölur urðu 2:2.

„Hver er munurinn á þessari hendi og þeirri sem var dæmd á mig í leiknum við Tottenham? Dómararnir vilja ekki að við kvörtum en þeir gera sjálfum sér lífið erfitt með þessu," sagði Fabregas í "twitter-færslu" eftir leikinn í gærkvöld en hann var sjálfur ekki með vegna leikbanns.

„Ég er ekki að kvarta, ég  vil bara spyrja hvers vegna sumir dómarar dæma víti á svona og aðrir ekki. Er þetta bara einhver tilfinning hjá þeim?" sagði Fabregas ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert