Rangnick: Stefni á tvo sigra gegn United

Ralf Rangnick.
Ralf Rangnick. Reuters

Ralf Rangnick  þjálfari þýska liðsins Schalke segir að sínir menn geti vel slegið Manchester United út í Meistaradeildinni og tryggt sér sæti í úrslitaleiknum á Wembley en fyrri leikur Schalke og United í undanúrslitum keppninnar fer fram á Schalke Arena annað kvöld.

Það voru fáir sem spáðu því að Schalke kæmist í undanúrslitin en liðið mætti Inter í átta liða úrslitunum. Annað kom á daginn því Schalke sló Evrópumeistarana út með því að vinna þá fyrst í Mílanó, 5:2, og svo 2:1 á heimavelli.

,,Ef við spilum eins og við gerðum tvisvar sinnum á móti Inter þá eigum við möguleika. Við erum ekkert að hugsa um 0:0. Við viljum vinna og spila eins og við gerðum á móti Inter á heimavelli. Það bjóst enginn við því að við myndum vinna Inter, 5:2, svo við ætlum að reyna að vinna báða leikina. Við unnum Inter ekki á neinni heppni.

Við vorum betri í báðum leikjunum. Ég veit ekki hvort United vanmeti okkur en ef það gerir það þá skiptir það ekki máli,“ sagði Rangnick við fréttamenn en hann var þjálfari Hoffenheim, liðs Gylfa Þórs Sigurðssonar, en sagði upp störfum og var síðar ráðinn þjálfari Schalke.

Rangnick hefur séð nokkra leikið Manchester United á þessu tímabili og hann segist ekki hafa séð neitt í leik liðsins sem hann óttist.

,,Ég sá United í leik á móti Chelsea fyrir átta vikum. Á þeim tíma vissi ég ekki að ég ætti eftir að verða þjálfari Schalke og myndi mæta United í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Ég sá einnig leiki liðsins á móti Newcastle, Manchester City í bikarnum og ég var svo með útsendara á leiknum gegn Everton á laugardaginn. Þegar þú horfir á hvaða lið sem er í heimi þá getur þú séð einhverja veikleika.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert