Meireles: Liverpool sveik loforð

Raul Meireles, til vinstri, á æfingu Chelsea í dag.
Raul Meireles, til vinstri, á æfingu Chelsea í dag. Reuters

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Raul Meireles er óhress með framkomu forráðamanna Liverpool í sinn garð þegar hann fór frá félaginu til Chelsea í lok ágúst.

Meireles var formlega kynntur til sögunnar á fréttamannafundi hjá Chelsea í dag og þar var hann spurður mikið út í viðskilnaðinn við Liverpool, sem keypti hann nákvæmlega ári áður frá Porto.

„Ég get aðeins sagt að mér var gefið eitt loforð hjá Liverpool og við það var ekki staðið. Liverpool óskaði eftir því að ég færi fram á sölu, og við það var ekkert að athuga," sagði Meireles.

Samkvæmt BBC var umrætt loforð væntanlega það að við komuna til Liverpool hafi honum verið lofað 100 prósenta kauphækkun að fyrsta árinu loknu, ef hann stæði sig vel í úrvalsdeildinni. Meireles átti ágætis tímabil, spilaði 35 leiki og skoraði 5 mörk.

„Þetta loforð er ekki það eina sem bar á milli en skiljanlega eru stuðningsmenn félagsins ekki vissir um hvers vegna ég fór. Ég fann um sumarið að Liverpool vildi selja mig og það kom mér dálítið á óvart. En það hefur enga þýðingu að velta sér meira uppúr þessu. Ég var hissa en nú einbeiti ég mér að nútíðinni og framtíðinni hjá Chelsea," sagði Portúgalinn.

Hann leikur nú á ný undir stjórn André Villas-Boas, sem seldi hann frá Porto til Liverpool.

„Þegar Chelsea sýndi mér áhuga var það gullið tækifæri fyrir mig. Nú er ég hér, nýtt ævintýri er að hefjast og hér vil ég standa mig. Ég vann undir stjórn Andrés í einn mánuð hjá Porto og ég finn að hugarfarið hér er það sama og þar - ákefðin í að vinna mót og titla. Með André við stjórnvölinn er það vel hægt. Ég sá á þessum mánuði hvernig hann vinnur og fann sigurþrána hjá honum. Það var því ekki erfitt fyrir mig að ákveða að koma til Chelsea," sagði Meireles.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert