Eriksson: Ekki hemja Rooney

Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Reuters

Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfari Englands og núverandi knattspyrnustjóri Leicester, segir að menn megi ekki reyna að hemja grimmdina í Wayne Rooney. Það sé hún sem geri hann að þeim heimsklassa leikmanni sem hann er.

Rooney var í gær úrskurðaður í þriggja leikja bann vegna rauða spjaldsins í leiknum gegn Svartfjallalandi fyrir viku síðan. Þar með getur hann að óbreyttu ekki spilað með Englendingum í riðlakeppni Evrópumótsins í Póllandi og Úkraínu næsta sumar og gæti fyrst komið til leiks í 8-liða úrslitunum.

BBC spurði Eriksson hvort hann hefði einhvern tíma tekið á skaphitanum í Rooney, sem fékk líka rauða spjaldið í átta liða úrslitum HM í Þýskalandi 2006, þegar Svíinn stýrði enska liðinu.

„Maður vill ekki hætta á að skaða styrkleika hans. Krafturinn og grimmdin eru honum ákaflega mikilvæg og menn  verða að taka því eins og það er. Árið 2006 sagði ég fólki að kála honum ekki því við þyrftum á honum að halda. Ef hann væri fullkominn á öllum sviðum væri hann gjörsamlega óstöðvandi," sagði Eriksson.

Um úrskurðinn og fjarveru Rooneys frá riðlakeppni EM sagði hann: "Þetta er mikil synd því þetta er Wayne Rooney. En fyrir vikið fáið þið frískan og hungraðan leikmenn í átta liða úrslitunum. Auðvitað verðið þið að taka hann með í keppnina. Þetta er Wayne Rooney. Hann gæti skorað sigurmarkið í úrslitaleiknum," sagði Sven-Göran Eriksson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert