Suárez: Mæti á Old Trafford með hreina samvisku

Luis Suárez og Patrice Evra. Takast þeir í hendur fyrir …
Luis Suárez og Patrice Evra. Takast þeir í hendur fyrir leikinn í dag? Reuters

Luis Suárez, framherji Liverpool, segist vera með hreina samvisku en hann mætir í dag Patrice Evra inni á vellinum í fyrsta skipti frá því þeim lenti saman í fyrri leik liðanna á Anfield sem dró heldur betur dilk á eftir sér. Suárez var úrskurðaður í átta leikja bann eftir að hafa verið fundinn sekur um kynþáttarníð í garð Evra.

,,Þetta er búið að vera mjög erfitt en ég hef reynt að vera eins fagmannlegur og hægt er. Þetta mun alltaf fylgja mér en ég mæti á Old Trafford með hreina samvisku,“ segir Suárez í viðtali við enska blaðið The Sun í dag.

Suárez lauk við að afplána leikbannið í vikunni og lék síðustu 25 mínúturnar þegar Liverpool gerði markalaust við Tottenham á mánudagskvöld.

,,Félagið og liðsfélagarnir hafa hjálpað mér í gegnum þennan erfiða tíma og fyrir mér er það mikilvægara en að skora 10 til 15 mörk,“ segir Suárez, sem telur að leikurinn á móti United í dag sé mjög mikilvægur fyrir bæði félög.

,,Bæði United og Liverpool þurfa á sigri að halda. Við erum að berjast fyrir Evrópusæti og ég hef trú á að við náum því,“ segir Úrúgvæinn en margir bíða spenntir að sjá hvort hann og Evra takist í hendur fyrir leikinn.

Leikur Manchester United og Liverpool hefst á Old Trafford klukkan 12.45

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert