Liverpool er aðhlátursefni

Brottrekstur Pepe Reina gegn Newcastle á sunnudaginn var enn eitt …
Brottrekstur Pepe Reina gegn Newcastle á sunnudaginn var enn eitt áfallið hjá Kenny Dalglish og hans mönnum. AFP

John Aldridge, fyrrverandi sóknarmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segir að það sé erfitt að vera stuðningsmaður liðsins þessa dagana en Liverpool hefur tapað átta af tólf leikjum sínum í úrvalsdeildinni frá áramótum.

Tapið gegn Newcastle var það sjötta í síðustu sjö leikjum í deildinni.

„Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Liverpool er í krísu. Það að tapa sex leikjum af sjö í deildinni er nokkuð sem engan veginn er hægt að þola. Að þetta skuli vera versta gengi liðsins frá 1954 segir sína sögu. Heimurinn fylgist með Liverpool og gagnrýnendur hafa heldur betur komist í feitt. Við erum orðnir að aðhlátursefni,“ sagði Aldridge við The Independent.

„Við erum öll stolt af því að vera tengd þessu félagi og öllu því sem það hefur afrekað á árum áður. En sem stendur er maður feiminn að  viðurkenna að maður sé stuðningsmaður Liverpool og það hef ég aldrei upplifað áður,“ sagði John Aldridge.

Aldridge, sem nú er 53 ára, er fæddur og uppalinn í Liverpool en lék þó aðeins með liðinu í tvö ár, frá 1987 til 1989 efrir að hafa komið til félagsins frá Oxford. Þá skoraði hann 50 mörk í 83 leikjum í efstu deild og var síðan seldur til Real Sociedad á Spáni. Þar gerði Aldridge 33 mörk í 63 leikjum. Hann sneri aftur til Liverpoolborgar en gerðist þar leikmaður og síðan knattspyrnustjóri Tranmere Rovers, og þar gerði hann 138 mörk í 243 deildaleikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert