Tíu Chelsea-menn slógu út Barcelona

Chelsea leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu eftir að hafa náð jafntefli, 2:2, á frækilegan hátt gegn Barcelona í seinni leik liðanna í undanúrslitunum á Camp Nou í Barcelona í kvöld. Leikmenn Chelsea voru manni færri í 55 mínútur og lentu 2:0 undir í þeirri stöðu, en tókst að skora tvívegis og jafna metin.

Chelsea vann fyrri leik liðanna, 1:0, með marki frá Didier Drogba, sigraði 3:2 samanlagt og mætir Bayern München eða Real Madrid í úrslitaleiknum í næsta mánuði.

Barcelona komst yfir á 35. mínútu með marki frá Sergio Busquets. Tveimur mínútum síðar var John Terry fyrirliði Chelsea rekinn af velli fyrir að sparka í Alexis Sanchez. Á 43. mínútu virtist Barcelona vera komin með öll tromp á hendi þegar Andrés Iniesta skoraði, 2:0.

En Ramires skoraði glæsilegt mark fyrir Chelsea í uppbótartíma fyrri hálfleiks, 2:1, og gaf enska liðinu von. Í þeirri stöðu var liðið komið áfram og Barcelona þurfti því að skora en hafði allan síðari hálfleikinn til þess gegn 10 leikmönnum Chelsea.

Barcelona fékk vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks þegar Didier Drogba felldi Cesc Fabregas. Lionel Messi tók vítaspyrnuna en skaut í þverslána og út!

Barcelona sótti látlaust það sem eftir var og Messi átti m.a. skot sem Petr Cech varði meistaralega með því að slá boltann í stöng og út. Cech varði oft mjög vel í leiknum.

Í uppbótartíma fékk svo Fernando Torres langa sendingu fram völlinn. Hann var aleinn á vallarhelmingi Barcelona, lék á Victor Valdés og skoraði, 2:2.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90+1. MARK - 2:2. Það ótrúlega hefur gerst. Chelsea fer áfram. Fernando Torres fær langa sendingu fram, er aleinn á vallarhelmingi Barcelona, leikur á Victor Valdés og rennir boltanum í tómt markið.

90. Petr Cech ver einu sinni enn, nú frá Javier Mascherano úr góðu færi.

89. GULT - Raúl Meireles fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Mascherano. Fjórði leikmaður Chelsea sem er kominn í bann ef liðið kemst í úrslitaleikinn!

87. Stórsókn Barcelona skilar fáum færum. Vörn Chelsea er afar þétt sem fyrr í og við eigin vítateig. Styttist í þessu, tíu leikmenn Chelsea færast nær takmarkinu.

83. STÖNG - Lionel Messi með þrumuskot frá vítateig, í stöng og út! Cech kemur reyndar fingrum í boltann og ver með því að slá boltann í stöngina.

82. Mark dæmt af Barcelona vegna rangstöðu. Naumt en líklega rétt.

80. Didier Drogba fer af velli hjá Chelsea. Hefur spilað nánast eins og vinstri bakvörður undanfarinn stundarfjórðung. Fernando Torres leysir hann af hólmi.

78. Langri sókn Barcelona lýkur með því að Sergio Busquets skýtur yfir úr ágætu færi í miðjum vítateignum. Nánast eins og handboltaleikur gegn sterkum varnarleik Chelsea.

74. Seydou Keita kemur inná fyrir Cesc Fabregas hjá Barcelona. Nánast látlaus sókn heimamanna en tíu leikmenn Chelsea verjast geysilega vel og skipulega.

72. GULT - Frank Lampard fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Cesc Fabregas.

71. GULT - Lionel Messi fær  gula spjaldið fyrir að brjóta á Frank Lampard.

68. Cristian Tello kemur inná fyrir Isaac Cuenca hjá Barcelona.

64. Branislav Ivanovic skallar framhjá marki Barcelona úr dauðafæri á markteig, eftir hornspyrnu frá Frank Lampard!

59. GULT - Petr Cech markvörður Chelsea fær  gula spjaldið fyrir að  tefja - var of lengi að taka útspark.

58. Juan Mata fer af velli hjá Chelsea og í hans stað kemur Salomon Kalou.

57. Didier Drogba reynir markskot frá miðjum vellinum og Victor Valdés þarf að kasta sér til að verja frá honum. Óvænt en góð tilraun.

50. GULT - Andrés Iniesta fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Didier Drogba.

49. VÍTI Í SÚGINN - Lionel Messi tekur vítaspyrnuna fyrir Barcelona en skýtur í þverslána og út!!

48. GULT - Branislav Ivanovic fær gula spjaldið fyrir að mótmæla vítaspyrnunni. Ef Chelsea fer í úrslitaleikinn eru Ivanovic, Ramires og Terry allir komnir í leikbann.

48. VÍTI - Barcelona fær vítaspyrnu. Didier Drogba fellir Cesc Fabregas.

46. GULT - Seinni hálfleikur hafinn. Ramires hjá Chelsea fékk gula spjaldið í kjölfar marksins áðan og verður í  banni ef Chelsea leikur til úrslita í keppninni.

45+1. MARK - 2:1. Þvert ofaní allt sem á undan er gengið skora tíu leikmenn Chelsea, og það er stórglæsilegt mark. Frank Lampard með sendingu í gegnum vörn Barcelona, aðeins hægra megin, Ramires brunar innfyrir, einn gegn Victor Valdés og lyftir boltanum glæsilega yfir hann. Staðan er 2:2 samanlagt og Chelsea færi áfram með þessum lokatölum. Rétt eins og í fyrri leiknum skorar Lundúnaliðið í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

43. MARK - 2:0. Lionel Messi rennir boltanum inní vítateiginn á Andrés Iniesta sem er sloppinn einn gegn Petr Cech og rennir boltanum í hægra hornið. Staðan 2:1 samanlagt.

37. RAUTT - John Terry fyrirliði Chelsea rekinn af vell! Hann setti hnéð í bakið á Alexis Sanchez þegar boltinn var hvergi nærri. Rekinn beint af velli. Báðir miðverðirnir farnir af velli hjá Chelsea.

35. MARK - 1:0. Flott spil hjá Barcelona. Isaac Cuenca fær boltann vinstra megin í vítateignum og rennir honum fyrir á Sergio Busquets sem skorar með viðstöðulausu skoti af markteig. Staðan 1:1 samanlagt.

32 GULT - Mikel John Obi, miðjumaður Chelsea, fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Alexis Sanchez.

26. Dani Alves kemur inná hjá Barcelona fyrir Gerard Piqué sem hefur ekki jafnað sig af höfuðhögginu áðan.

24. Didier Drogba með tvö skot að marki Barcelona með stuttu millibili. Lítil hætta af því fyrra og boltinn yfir en í því seinna fer boltinn í hliðarnetið eftir fína tilraun.

19. Lionel Messi í dauðafæri í miðjum vítateig Chelsea en Petr Cech ver stórglæsilega frá honum með fótunum!

19. Gerard Piqué er kominn inná á ný. Virðist í lagi og heldur áfram.

16. Gerard Piqué, Victor Valdés og Didier Drogba liggja allir eftir árekstur í vítateig Barcelona. Piqué virðist hafa farið verst útúr þessu og virkar meðvitundarlítill. Rís þó á fætur og gengur af velli til aðhlynningar.

12. Gary Cahill hefur lokið keppni. Hann reyndi að harka af sér en hefur greinilega tognað áðan. José Bosingwa kemur í hans stað.

11. Ashley Cole bjargar við marklínu Chelsea eftir hættulega fyrirgjöf frá vinstri.

10. Gary Cahill heldur áfram eftir aðhlynningu en José Bosingwa var kominn að hliðarlínunni og virtist klár í að koma inná í stað hans.

7. Gary Cahill miðvörður Chelsea liggur og virðist hafa tognað í læri. Spurning með áframhald hjá honum?

3. Messi og Alexis Sanchez spila sig í gegnum miðja vörn Chelsea, Messi í fínu færi, aðeins hægra megin, en þrumar í hliðarnetið.

1. Leikurinn er hafinn. Chelsea með sama lið og í fyrri leiknum. Nokkrar breytingar hjá Barcelona, Dani Alves er m.a. settur á bekkinn.

Lið Chelsea: Cech; Ivanovic, Cahill, Terry, Cole; Mikel, Lampard; Mata, Meireles, Ramires; Drogba.
Varamenn: Turnbull, Bosingwa, Essien, Malouda, Torres, Kalou, Sturridge.

Lið Barcelona:  Valdes; Puyol, Mascherano, Piqué; Xavi, Busquets, Iniesta, Fabregas; Cuenca, Messi, Alexis.
Varamenn: Pinto, Alves, Thiago, Keita, Adriano, Tello, Pedro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert