Giroud: Valdi Arsenal frekar en Chelsea

Oliver Giroud spilar á Emirates-vellinum næsta vetur.
Oliver Giroud spilar á Emirates-vellinum næsta vetur. AFP

Franski framherjinn Oliver Giroud, sem er að ganga í raðir Arsenal frá Montpellier í Frakklandi, segist hafa hafnað því að semja við Evrópumeistara Chelsea.

Chelsea er að leita að eftirmanni Didiers Drogba og hafði Roman Abramovich, eigandi Chelsea, sýnt Giroud áhuga en hann varð markahæstur í frönsku úrvalsdeildinni í vetur.

„Valið stóð á milli Chelsea og Arsenal. Ég valdi Arsenal vegna hugmyndafræði klúbbsins og stöðugleika hans. Þessir hlutir skipta mig miklu máli,“ segir Giroud sem kostar Arsenal 13 milljónir punda.

„Mig hefur alltaf dreymt um að spila í ensku úrvalsdeildinni og Arsenal er frábært félag með marga franska leikmenn,“ segir Oliver Giroud.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert