Gylfi Þór genginn í raðir Tottenham

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AP

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er orðinn leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham en félagið greindi frá því rétt í þessu á twitter síðu sinni að Gylfi hafi gengið í raðir félagsins.

Tottenham greiðir þýska liðinu Hoffenheim 8 milljónir punda fyrir Gylfa Þór en sú upphæð nemur tæpum 1,6 milljarði íslenskra króna. Gylfi átti tvö ár eftir af samningi sínum við Hoffenheim en hann var í láni hjá Swansea seinni hlutann á síðustu leiktíð og sló í gegn með nýliðunum. Gylfi skoraði 7 mörk í 18 leikjum með liðinu og lagði upp nokkur mörk fyrir samherja sína. Hann var meðal annars valinn besti leikmaður marsmánaðar í deildinni og fékk nær undantekningalaust afar góða dóma fyrir leiki sína með liðinu.

Eftir að tímabilinu lauk á Englandi í maí hefur verið slegist um Gylfa. Líklegt var á tímabili að hann yrði áfram í herbúðum Swansea en eftir að knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers var ráðinn stjóri Liverpool var fastlega búist við því að Gylfi myndi fylgja honum. Liverpool gerði Gylfa tilboð en það gerði Tottenham einnig og eftir ítarlega umhugsun ákvað Gylfi að velja Tottenham.

Hann verður fjórði Íslendingurinn sem gengur til liðs við Tottenham. Sá fyrsti var Guðni Bergsson, Emil Hallfreðsson var um tíma á mála hjá félaginu en náði ekki að spila með aðalliðinu og þá lék Eiður Smári Guðjohnsen með liðinu hluta úr tímabili.

Gylfi er fyrsti leikmaðurinn sem André Villas-Boas fær til liðsins eftir að hann var ráðinn knattspyrnustjóri félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert