Ferguson: Suárez kostaði Dalglish starfið

Alex Ferguson.
Alex Ferguson. AFP

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að mál Luis Suárez síðasta vetur hafi átt stóran þátt í því að eigendur Liverpool sögðu kollega hans og landa, Kenny Dalglish, upp störfum að keppnistímabilinu loknu.

Ferguson sagði þetta við fréttamenn í Durban í Suður-Afríku í dag en þar er lið Manchester United við æfingar og keppni þessa dagana. Þetta  voru viðbrögð hans við ummælum Suárez í sjónvarpsviðtali í Úrúgvæ í vikunni en þar sagði Liverpool-maðurinn m.a. að pólitískt vald Manchester United í enska fótboltanum væri mikið og menn yrðu að virða það og halda sér saman.

„Ég var ekki hissa þegar Kenny hvarf á braut. Ég tel að atvikið með Suárez hljóti að hafa átt stóran þátt í því. Það getur ekki annað verið. John Henry (eigandi Liverpool) hefur greinilega horft til þess og talið að það hafi ekki verið höndlað rétt,“ sagði Ferguson.

Suárez var síðasta vetur úrskurðaður í átta leikja bann fyrir meint kynþáttaníð í garð Patrice Evra, leikmanns United, í leik liðanna í október. Mál þeirra blossaði upp á ný þegar ekkert varð af handabandi þeirra á milli fyrir leik liðanna síðar um veturinn og hafa báðir aðilar kennt hinum um að eiga sök á því. Suárez kom m.a. inn á það í umræddu sjónvarpsviðtali.

Ferguson gaf líka sitt álit á þeim ummælum: „Já, ég sá að hann hafði talað um það. Handabandsmálið olli vonbrigðum. Hann fullyrðir að Evra hafi ekki rétt fram höndina. Það er enginn vafi á því að Evra rétti höndina í átt til hans en ég held að Evra hafi ekki reiknað með að hann tæki í hana. Evra sagði einmitt það við strákana. Það var Suárez sem átti að gera eitthvað í málinu.

Ég held að bannið sem Suárez fékk hafi ekki haft neitt með Manchester United að gera. Það snerist um Patrice Evra. Og það var náunginn sem reyndi að útskýra menningarmuninn sem fór verst með Suárez,“ sagði Ferguson ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert