Nani sá rautt er Real vann á Old Trafford

Real Madrid er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir sigur Manchester United, 2:1, á seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum á Old Trafford í kvöld. Real vann samanlagt, 3:2.

Manchester United komst yfir í leiknum, 1:0, með sjálfsmarki Sergio Ramosar á 48. mínútu en skömmu síðar var Portúgalanum Nani vikið af velli með rautt spjald fyrir afar litlar sakir.

Gestirnir settu í fluggírinn og skoruðu tvö mörk á tveggja mínútna kafla. Fyrst þrumaði Luka Modrid boltanum í stöngina og inn og svo skoraði Cristiano Ronaldo á sínum gamla heimavelli. Hann fagnaði ekki frekar en síðast þegar liðin mættust.

Manchester United fékk nokkur góð færi til að skora undir lok leiksins en Diego López í marki Real Madrid varði hvað eftir annað.

Í Dortmund unnu Þýskalandsmeistararnir öruggan 3:0-sigur á Shakhtar Donetsk og eru komnir áfram í átta liða úrslit eins og Real Madrid.

Fylgst var með leik United og Real í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Man. United - Real Madrid 1:2 (2:3) LL
Sergio Ramos 48., sjálfsmark. – Luka Modric 67., Cristiano Ronaldo 69.
Dortmund - Shakhtar Donetsk 3:0 (5:2) LL
Felipe Satana 31., Mario Götze 37., Jakub Blaszczykowski 59.

---

90.+6 LEIKJUNUM ER LOKIÐ! Real Madrid og Borussia Dortmund eru komin áfram í átta liða úrslit.

90.+2 Enn ver López í marki Real Madrid. Nú kemur hann í veg fyrir að Vidic skori með skalla eftir hornspyrnu. Sá er búinn að vera flottur í þessum leikjum.

90. Uppbótartími verður að minnsta kosti fimm mínútur.

89. STÖNG! Kaká skýtur í stöngina úr þröngu færi en boltinn fer af stönginni og í bakið á De Gea. Spánverjinn nær boltanum áður en hann rúllar yfir línuna.

84. Heimamenn vaða í færum. López ver enn og aftur, nú frá Persie úr dauðafæri. Young fær boltann og gefur inn á teiginn þar sem Van Persie hittir ekki boltann en Rooney fær dauðafæri sem hann skýtur yfir úr.

83. Michael Carrick nær skalla í dauðafæri eftir sendingu frá Giggs en López ver meistaralega.

80. Leikurinn hefur róast töluvert eftir fjörugar mínútur áðan. Danny Welbeck kemst í ágætis færi í vítateig Real en skýtur beint í Sergio Ramos. Hann fer svo af velli fyrir Ashley Young.

73. Wayne Rooney kemur inn á hjá Manchester United í stað Toms Cleverleys.

MARK Í DORTMUND! Jakub Blaszczykowski skorar þriðja mark Dortmund gegn Shakhtar, 3:0.

71. Mesut Özil fer af velli fyrir Portúgalann Pepe.

69. MARK! - 1:2. Glæsileg sókn hjá Real Madrid. Mesut Özil gefur gullfallega hælspyrnu á Higuaín sem sendir boltann fyrir markið. Á fjærstönginni er enginn annar en Cristiano Ronaldo mættur og skorar. Hann fagnar ekki af virðingu við sína gömlu félaga. Manchester United þarf nú að skora tvívegis, manni færri.

67. MARK! - 1:1. Stórkostlegt mark hjá Króatanum Luka Modric. Hann hefur lítið getað með Real á tímabilinu en er greinilega á spariskónum í kvöld. Hann þrumar boltanum í stöngina og inn með bylmingsskoti.

64. Robin van Persie reynir skot með hægri fyrir utan teig. Það er fast en López er vel á verði. Annars eru heimamenn í nauðvörn þessa stundina.

61. DAUÐAFÆRI! Gonzalo Higuaín fær skallafæri upp við mark Manchester United en hann skallar boltann beint í hendur Rafaels sem bjargar marki.

59. Mourinho ekki lengi að bregðast við. Luka Modric kemur inn á í stað Álvaro Arbeloa.

56. RAUTT! Portúgalinn Nani reynir að taka niður sendingu Patrice Evra sem er aðeins of löng. Nani réttir út aðra löppina og sparkar óviljandi í Álvaro Arbeloa sem hann sá aldrei koma. Þegar Nani stendur aftur á fætur fær hann rautt spjald. Gjörsamlega glórulaust hjá dómaranum. Gult spjald hefði verið harður dómur en þetta er út í hött.

54. Gonzalo Higuaín gefur frábæra sendingu fyrir markið frá hægri milli markvarðar og varnarlínu en enginn leikmaður Real nýtir sér tækifærið og ræðst á boltann. Argentínumaðurinn ósáttur við samherja sína.

48. MARK! - 1:0. Diego López ver frá Danny Welbeck úr dauðafæri og varnarmenn Real kasta sér svo fyrir skot Robins vans Persie sem fær frákastið. Þegar hættan virðist liðin hjá vinnur Nani boltann af hinum unga Raphaël Varane og gefur fyrir þar sem Sergio Ramos verður fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net.

46. Seinni hálfleikur hafinn.

45. HÁLFLEIKUR.

45. Þá kemur skiptingin. Di Maria fékk hökk á lærið og gekk rakleiðis til búningsklefa. Brasilíumaðurinn Kaká kemur inná í hans stað. Ekki amalegt.

43. Ángel di María fer meiddur af velli.

MARK Í DORTMUND! Þjóðverjarnir að ganga frá einvíginu gegn Shakhtar. Mario Götze skorar annað markið, 2:0, á 37. mínútu. Dortmund er tveimur mörkum yfir samanlagt og með tvö mörk á útivelli. 

38. Álvaro Arbeloa fær gult spjald í liði Real Madrid fyrir brot á Patrice Evra.

MARK Í DORTMUND! Þýskalandsmeistarar Dortmund skora fyrsta mark kvöldsins. Felipe Santana kemur þeim yfir gegn Shakhtar, 1:0, á 31. mínútu. 

34. DAUÐAFÆRI! Diego López ver skot Robins van Persie beint út í teig á Danny Welbeck sem fær dauðafæri en López er fljótur að átta sig og ver í horn. Spænski markvörðurinn bjargaði sér þarna en Welbeck hefði getað gert betur.

32. Gonzalo Higuaín kemst í ágætt færi þó þröngt sé vinstra megin við mark United. De Gea lokar og ver í horn.

28. Ronaldo kemst í dauðafæri upp við mark Man. United eftir háa sendingu yfir vörnina. Vidic kemst fyrir skotið á síðustu stundu.

21. STÖNG! Nemanja Vidic skallar boltann í stöng eftir hornspyrnu Ryans Giggs. Danny Welbeck fær dauðafæri í kjölfarið en spyrnir boltanum beint í hendur markvarðarins sem lá. Welbeck var þó rangstæður.

18. Patrice Evra fyrstur til að fá gult spjald. Hann lendir í bullandi vandræðum með Ángel Di María í skyndisókn og rífur hann niður viljandi.

15. Giggs gefur glæsilega utanfótar sendingu á Robin Van Persie sem er upp við mark Real Madrid. Hollendingurinn reynir að gefa fyrir á Danny Welbeck en Sergio Ramos bjargar í horn sem ekkert verður úr.

11. Gonzalo Higuaín á fyrsta skot leiksins fyrir Real sem fer rétt framhjá. Komst í ágætis skotfæri en Nemanja Vidic lokar vel.

10. Dómarinn stöðvar leikinn vegna meiðsla Toms Cleverleys en hann stendur á fætur og heldur áfram leik.

8. Real fær fyrstu hornspyrnu leiksins en Robin van Persie skallar boltann frá á nærstönginni.

4. Ryan Giggs gefur aukaspyrnu á hættulegum stað og Ronaldo mundar að sjálfsögðu skotfótinn. Sem betur fer fyrir heimamenn þrumar Ronaldo boltanum beint í vegginn.

0. Leikirnir eru hafnir.

0. Liðin eru að ganga út á völlinn. Stemningin er svona eftir atvikum bara.

0. Ronaldo var í sigurliði í öllum 17 Meistaradeildarleikjum sínum fyrir Manchester United á Old Trafford. Hann skoraði sjö mörk í þeim leikjum.

0.  „Wayne þarf í rauninni að hvíla einn til tvo leiki ef ég á að vera heiðarlegur. Hann kemur líklega inn á í seinni hálfleik og vinnur leikinn fyrir okkur,“ segir Sir Alex Ferguson um ákvörðunina að hafa Rooney á bekknum.

„Við áttum í miklum vandræðum með Xabi Alsono í fyrri leiknum en hann stýrir leik Real Madrid. Welbeck er okkar besti maður þegar kemur að því að hlaupa til baka og verjast,“ bætir Skotinn við.

0. Diego Armando Maradona er mættur á Old Trafford. Hann er gripinn af myndavélamönnum í kossaflensi við unga og glæsilega dömu í einu VIP-boxinu.

0. Ryan Giggs spilar 134. Meistarardeildarleikinn í kvöld. Spánverjinn Raúl er sá eini sem leikið hefur oftar í Meistaradeildinni eða 142 sinnum.

0. „Velkominn heim, Ronaldo,“ segir á óáfum skiltum stuðningsmanna á Old Trafford. Portúgalinn fær mikið lófatak þegar hann mætir til upphitunar.

0. Eðlilega vekur það gríðarlega athygli að Wayne Rooney er ekki í byrjunarliði Manchester United í kvöld. Eiginkona hans Coleen Rooney er ekki sátt og segir á Twitter-síðu sinni: „Trúi því ekki að Wayne Rooney sé ekki í byrjunarliðinu!!!“

0. „Real Madrid er eitt besta liðið þegar kemur að því að beita skyndisóknum. Real sýndi það gegn Barcelona. Við verðum að finna leið til þess að ráða við þessar skyndisóknir og á sama tíma reyna sækja sjálfir,“ sagði Sir Alex Ferguson á blaðamannafundi í gær.

0. Eftir að hvíla sína helstu menn um helgina eru allar sleggjurnar aftur mættar aftur í byrjunarlið Real Madrid. 

0. Wayne Rooney er frekar óvænt ekki í byrjunarliði Manchester United. Ryan Giggs byrjar í sínum 1000. leik og þá fær Welbeck tækifærið eftir frábæra frammistöðu í fyrri leik liðanna. Tom Cleverley tekur stöðu Phil Jones frá fyrri leiknum.

Man. Utd: De Gea, Rafael, Ferdinand, Vidic, Evra, Carrick, Cleverley, Nani, Welbeck, Giggs, Van Persie.
Varamenn: Lindegaard, Evans, Valencia, Young, Kagawa, Rooney, Hernandez.

Real Madrid: Lopez, Arbeloa, Varane, Ramos, Coentrao, Alonso, Khedira, Di Maria, Ozil, Ronaldo, Higuain.
Varamenn: Adan, Pepe, Kaka, Benzema, Albiol, Modric, Callejon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert