Wigan bikarmeistari í fyrsta sinn eftir dramatík

Pablo Zabaleta var rekinn af velli seint í leiknum.
Pablo Zabaleta var rekinn af velli seint í leiknum. AFP

Wigan landaði í dag sínum fyrsta stóra titli þegar liðið bar sigurorð af stórliði Manchester City í úrslitaleik. Varamaðurinn Ben Watson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma með skalla eftir hornspyrnu.

Það var engan veginn hægt að sjá í leiknum í dag að Wigan væri í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni. Liðið lék frábærlega gegn milljarðaliði City og verðskuldaði sigurinn fyllilega. Pablo Zabaleta fékk að líta sitt annað gula spjald, og þar með rautt, á 84. mínútu og skömmu síðar kom eina mark leiksins.

Þetta er magnaður árangur hjá Roberto Martínez stjóra Wigan en sæti Roberto Mancini sem stjóri City er orðið enn heitara en áður. Nú er orðið ljóst að liðið landar ekki titli á þessu tímabili.

Wigan er nú á leið í Evrópudeildina á næstu leiktíð jafnvel þó að liðið falli niður í 1. deild eins og útlit er fyrir.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Man. City - Wigan, 0:1
(Ben Watson 90. Rautt spjald: Pablo Zabaleta 84.)

90.+4 Wigan er bikarmeistari! Leik lokið.

90.+1 MARK! Varamaðurinn Ben Watson kom Wigan yfir með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu. Brjáluð fagnaðarlæti hjá stuðningsmönnum Wigan sem trúa varla eigin augum.

84. RAUTT! Manchester City var að missa Pablo Zabaleta af velli með rautt spjald en hann fékk sitt annað gula spjald fyrir að tækla Callum McManaman niður í skyndisókn. Er Davíð að fara að leggja Golíat að velli?

76. Shaun Maloney tók aukaspyrnu hægra megin við vítateig City og hvort sem um fyrirgjöf eða skot var að ræða þá fór boltinn í boga yfir varnarveginn, sem og Joe Hart, og lenti ofan á þverslánni. Enn markalaust.

69. Jack Rodwell var að koma inná fyrir Carlos Tévez. Argentínumaðurinn ekki sáttur.

67. Callum McManaman er búinn að vera frábær í þessum leik. Hann var að koma sér í gott færi hægra megin í vítateig City, eftir að hafa leikið á Silva og Clichy, en Vincent Kompany kastaði sér fyrir skot hans.

55. James Milner var að koma inná fyrir Samir Nasri.

51. Carlos Tévez bjó til gott færi fyrir Sergio Agüero til að skora en á síðustu stundu komst Emmerson Boyce í veg fyrir skotið.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. Bæði lið hafa fengið góð færi til að komast yfir í leiknum en enn er markalaust.

41. Gareth Barry fékk gott færi hægra megin í vítateig Wigan en skot hans var laust og Robles greip boltann.

36. Callum McManaman slapp einn í gegnum vörn City en náði boltanum ekki fyrr en nærri endamörkum, vinstra megin í teignum. Joe Hart kom út á móti honum og McManaman fór þá til baka út í teiginn. Þá voru varnarmenn City mættir aftur. McManaman lék aðeins á þá áður en hann skaut boltanum en skotið fór beint í varnarmann. Stórhættulegt færi.

29. Carlos Tévez var nálægt því að koma City yfir með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá David Silva en Joel Robles varði stórkostlega með öðrum fætinum þegar boltinn virtist stefna í markið.

23. Fyrri hálfleikur er hálfnaður og Wigan-menn geta verið hæstánægðir með sinn leik. Þeir eru síst lakari aðilinn.

9. Wigan fékk fyrsta færi leiksins og það var alveg frábært. Callum McManaman fékk boltann hægra megin í teignum, lék til vinstri og skaut svo framhjá. Slæm nýting.

1. Leikur hafinn.

0. City vann Chelsea í undanúrslitum en hafði áður slegið út Barnsley, Leeds, Stoke og Watford. Wigan þurfti aðeins að slá út eitt úrvalsdeildarlið, Everton í 8-liða úrslitum, en liðið vann Millwall í undanúrslitum og sló einnig út Huddersfield, Macclesfield og Bournemouth.

0. Wigan á í erfiðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni, situr í þriðja neðsta sæti og er þremur stigum á eftir næstu liðum þegar tvær umferðir eru eftir. City hefur einnig valdið vonbrigðum á leiktíðinni, en er nú samt í 2. sæti deildarinnar.

0. Þá hafa byrjunarliðin verið staðfest og hægt að sjá þau hér að neðan.

0. Fyrstu fréttir herma að Joe Hart byrji í marki City en Rúmeninn Costel Pantilimon hefur byrjað alla bikarleiki liðsins fram til þessa.

Man. City: Hart, Zabaleta, Kompany, Nastasic, Clichy, Yaya Touré, Barry, Nasri, Silva, Tévez, Agüero.
Varamenn: Pantilimon, Garcia, Rodwell, Milner, Dzeko, Kolarov, Lescott.

Wigan: Robles, Kone, Alcaraz, McCarthy, Maloney, Gomez, McManaman, McArthur, Boyce, Espinoza, Scharner.
Varamenn: Al Habsi, Caldwell, Watson, Di Santo, Henriquez, Fyvie, Golobart.

David Silva reynir bakfallsspyrnu án árangurs.
David Silva reynir bakfallsspyrnu án árangurs. AFP
Yaya Touré nær boltanum af James McCarthy.
Yaya Touré nær boltanum af James McCarthy. AFP
Jordi Gómez fer hátt með löppina í baráttu við Carlos …
Jordi Gómez fer hátt með löppina í baráttu við Carlos Tévez. AFP
Bikarinn er í boði á Wembley í dag.
Bikarinn er í boði á Wembley í dag. AFP
Roberto Martinez var að sjálfsögðu spariklæddur.
Roberto Martinez var að sjálfsögðu spariklæddur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert