Verðandi eigandi Leeds vildi ekki reka stjórann

Brian McDermott er áfram stjóri Leeds þrátt fyrir að vera …
Brian McDermott er áfram stjóri Leeds þrátt fyrir að vera rekinn á föstudaginn. AFP

Ítalski auðjöfurinn Massimo Cellino sem er við það að eignast enska B-deildarliðið Leeds segir í viðtali við Sunday Telegraph í dag að hann hafi ekki rekið Brian McDermott, stjóra Leeds, á föstudaginn í þeim tilgangi að ráða Gianluca Festa í hans stað.

McDermott var tilkynnt á föstudaginn, lokadag félagaskipta, að hann væri ekki lengur stjóri liðsins en það var dregið til baka daginn eftir þegar lögmaður McDermotts fór í málið og gerði öllum grein fyrir að Cellino hefði engan rétt á að reka hann.

McDermott var ekki á hliðarlínunni á Elland Road í gær þegar Leeds valtaði yfir Huddersfield, 5:1, og rauf þar átta leikja leikjahrinu án sigurs.

Eftir leikinn staðfesti Leeds að McDermott væri enn stjóri liðsins en tilkynningin kom eftir að félagið opinberaði að það hefði samþykkt að selja 75 prósent hlut í félaginu til Eleonora Sport Ltd sem er í eigu Cellino-fjölskyldunnar.

Cellino, sem á einnig A-deildarliðið Cagliari á Ítalíu, var sagður vilja fá Gianluca Festa, fyrrverandi leikmann Middlesbrough og núverandi stjóra C-deildarliðsins Lumezzane, til starfa í stað McDermotts en þar sem forsvarsmenn ensku deildakeppninnar hafa ekki heimilað yfirtöku Ítalans hefur hann ekki heimild til að ráða eða reka nokkurn mann.

„Ég vil þjálfarann aftur og hef reynt að hringja í hann. Ég hef ekkert á móti þessum þjálfara. Hvernig get ég líka rekið nokkurn mann? Ég þarf samþykki deildarinnar áður en ég eignast félagið. Eignarhaldsfélagið GHF á Leeds ennþá. Það vildi ekki hafa McDermott sem stjóra en höfðu ekki hugrekki til að reka hann,“ segir Cellino í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert