Yfirburðir Liverpool algjörir

Liverpool tók Arsenal í kennslustund í knattspyrnufræðum þegar þeir unnu toppliðið 5:1 í hreint frábærum knattspyrnuleik.

Leikmenn Arsenal skörtuðu gulum og bláum búningum í leiknum og þeir voru eins og gamalt IKEA-húsgagn frá Svíþjóð í leiknum. Skrúfaðir í sundur trekk í trekk. Fyrsta markið kom eftir rúma mínútu þegar Martin Skrtel skoraði með skalla. Hann var aftur á ferðinni eftir tíu mínútur og Arsene Wenger og hans menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Hefði þetta verið handboltaleikur hefði Wenger tekið leikhlé - slíkir voru yfirburðir Liverpoolmanna. Þriðja markið kom eftir 15 mínútur þegar Raheem Sterling skoraði en þá höfðu bæði Daniel Sturridge og Luis Suarez átt góð færi. Suarez átti stórkostlegt skot sem nánast braut stöngina. En Sturridge skoraði fjórða markið eftir frábæra sendingu frá Coutinho og þannig var staðan í hálfleik. 

Arsene Wenger gerði enga breytingu á sínu liði í hálfleik og vildi væntanlega leyfa leikmönnum sínum hefna fyrir fyrri hálfleikinn. En Liverpool slakaði ekkert á. Fimmta markið leit dagsins ljós á 51. mínútu þegar Sterling skoraði sitt annað mark. Áfram hélt sýningin og Sterling fékk fínt færi skömmu síðar og Jordan Henderson fór illa með gott færi.
Gestirnir minnkuðu muninn 20 mínútum fyrir leikslok með marki Mikel Arteta úr vítaspyrnu. Eftir það mark róaðist loks leikurinn.

Kraftur Liverpoolmanna var ótrúlegur og liðið sýndi sparihliðarnar í dag. Þeir voru ekki að etja kappi við neitt smálið, Arsenal er enn á toppnum þegar þetta er skrifað.
Lundúnaliðið var arfaslakt í leiknum og í raun sjálfu sér verst.

Liverpool - Arsenal 5:1
Skrtel (1.) (10.) Sterling (17.) (51.) Sturridge (20.) - Arteta (68.)

90. Búið. Sem betur fer segja Arsenalmenn væntanlega. 

68. Mark. Staðan er 5:1. Arteta skorar úr vítaspyrnu eftir að Steven Gerrard hafði brotið klaufalega af sér. Tók Chamberlain niður í vítateignum og stuðningsmenn Arsenal fagna sem óðir væru. Skemmtilegt að sjá. Þeir eru búnir að játa sig sigraða.

66. Jordan Henderson í góðu færi en ákvað að reyna að lyfta boltanum yfir markvörð Arsenal, Szczesny. Coutinho átti magnaðan sprett upp völlinn og sending hans augnakonfekt beint á Henderson.

60. Þreföld skipting hjá Wenger. Podolski kemur í stað Giroud, Özil fer út og Rosicky í hans stað og Gibbs í stað Monreal.

57. Suarez pínu pirraður að hafa ekki fengið boltann í skyndisókn. Fórnaði höndum. Hann á eftir að skora í þessum leik. Vill bæta fyrir það. Þetta er ekkert búið. Hálftími eftir. Hvar endar þessi sýning?

55. Dauðafæri hjá Sterling. Frábær aukaspyrna Steven Gerrard en boltinn lak framhjá.

51. MARK. STAÐAN ER 5:0. Hvar endar þetta? Raheem Sterling að bæta við fimmta markinu. Fékk stungusendingu inn fyrir vörn Arsenal og skoraði í annarri tilraun. Hafi Arsenalmenn vonast eftir kraftaverki þá er það farið út um gluggann.

46. Þetta er komið aftur af stað. Arsene Wenger gerði enga breytingu. Vill væntanlega leyfa leikmönnum sínum hefna fyrir þennan fyrri hálfleik.

45. Jæja. Þessi fyrri hálfleikur var sýning hjá heimamönnum. Þeir niðurlægðu toppliðið í þessum fyrri hálfleik. Staðan er 4:0 í hálfleik. Ótrúlegt. Við tökum okkur smáhlé, náum áttum og komum fersk til leiks í síðari hálfleik. 

40. Sendingar Arsenalmanna aðeins betri. En hvað gerir Wenger í hálfleik. Gerir hann þrjár breytingar? Hann væri búinn að ýta á endurræsingartakkann ef þetta væri leikur í FIFA. Því miður fyrir hann, þá er þetta bara alvaran. 

30. Loks róast leikmenn Liverpool. Hættir að skora í hverri sókn og maður getur dregið andann. En sendingar Arsenal hitta varla á samherja. Það sem Wenger segir í hálfleik. Hvað verður það?

20. MARK. STAÐAN ER 4:0. Ég endurtek 4:0. Sturridge skorar eftir frábæra sendingu frá Coutinho. Það verður að segjast. Ég er orðlaus. 

15. MARK. STAÐAN ER 3:0. Raheem Sterling að bæta við þriðja markinu. Ég skal segja ykkur það. Þetta er með ólíkindum. Þeir hefðu getað verið búnir að skora meira.  

12. Vá. Þetta hefði mátt vera mark. Suarez með stórkostlegt skot en í stöngina. Boltinn barst í lappir Kolos Toures sem mokaði honum framhjá fyrir opnu færi. Ótrúlegt skot. Það stendur yfir sýning á Anfield.

11. Maður hefur bara varla undan að skrifa. Daniel Sturridge í dauðafæri eftir sendingu Suarez. Um leið og maður er að hamra það færi kemur bara annað dauðafæri. Arsenalmenn eru bara enn í Lundúnum. 

10. MARK. Staðan er 2:0. Hvað er að gerast. Aftur skorar Skrtel. Þvílíkt og annað eins. Ef ég er að telja rétt þá er þetta 22. mark Liverpool eftir fast leikatriði. En þessi byrjun á þessum leik er algjörlega geggjuð.

1. MARK. Staðan er 1:0. Þvílík byrjun. Martin Skrtel að skora. Steven Gerrard með aukaspyrnu, stórbrotna aukaspyrnu og Skrtel skorar. Ja hérna hér. 

1 Þetta er komið af stað. Góða skemmtun

12.43 You'll never walk alone hljómar á vellinum. Áhorfendur kyrja með. Þarna verða allir stuðningsmenn Liverpool að prófa að vera - allavega einu sinni. Mínútuklapp til minningar um fyrrverandi leikmann Liverpool, Tony Hateley, sem lést í vikunni 72 ára gamall. 

12.40 Anfield iðar. Leikmenn að ganga út á völl. Þetta er að byrja. 

12.30. Jack Wilshere var víst að glíma við ökklameiðsli en hefur hrist þau af sér. Mathieu Flamini og Aaron Ramsey eru enn meiddir. Brendan Rodgers er með sama lið og gerði jafntefli við WBA. Styttist í leik. Rikki Gé lýsir. 

12:00 Byrjunarliðin eru komin. Suárez og Sturridge byrja frammi hjá Liverpool. Oxlade-Chamberlain er á miðjunni hjá Arsenal. Þetta verður ofboðslegt fjör. Það er nánast hægt að lofa því. 

Byrjunarlið Liverpool: Mignolet; Flanagan, Toure, Skrtel, Cissokho; Gerrard, Henderson; Sterling, Coutinho, Suarez; Sturridge.
Varamenn: Jones, Kelly, Ibe, Moses, Aspas, Allen, Alberto.

Byrjunarlið Arsenal: Szczesny; Sagna, Mertesacker, Koscielny, Monreal; Arteta, Wilshere; Oxlade-Chamberlain, Ozil, Cazorla; Giroud.
Varamenn: Fabianski, Jenkinson, Gibbs, Rosicky, Gnabry, Podolski, Bendtner

Síðustu viðureignir

  • 02-11-2013 Arsenal 2:0 Liverpool
  • 31-07-2013 Arsenal 2:2 Liverpool
  • 02-09-2012 Liverpool 0:2 Arsenal

Staðan fyrir leikinn:

1 Arsenal 24 17 4 3 47:21 55
2 Man.City 24 17 2 5 68:27 53
3 Chelsea 24 16 5 3 44:20 53
4 Liverpool 24 14 5 5 58:29 47
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert