„Liverpool og City með forskot“

Leikmenn Chelsea fagna marki gegn Arsenal um síðustu helgi.
Leikmenn Chelsea fagna marki gegn Arsenal um síðustu helgi. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea segir að Manchester City og Liverpool hafi forskot á Chelsea í titilbaráttunni og hann segir að Arsenal geti vel endað sem meistari í vor.

„Við erum að spila í Meistaradeildinni en ekki þau. Við þurfum að spila leiki með tveggja til þriggja daga millibili og við þurfum að breyta áherslunni frá úrvalsdeildinni til Meistaradeildarinnar og aftur til úrvalsdeildarinnar,“ segir Mourinho en fyrir leiki helgarinnar er Chelsea í efsta sæti með 69 stig, Liverpool 68, Manchester City 66 en á tvo leiki til góða og Arsenal er með 63 stig.

„Liverpool heldur áfram á sínu fullkoma tímabili. Við þurfum að spila í Meistaradeildinni og höfum ekki tíma til undirbúnings fyrir leikina eins og Liverpool og City. Ég tel að þau hafi þar með forskot. Arsenal er líka með í baráttunni. Það er auðvitað erfiðara fyrir þá vegna þess að liðið er nokkrum stigum á eftir efstu liðunum en stærðfræðilega á Arsenal möguleika,“ segir Mourinho.

Chelsea mætir Crystal Palace á útivelli á morgun. Arsenal og Manchester City eigast við á Emirates og Liverpool fær Tottenham í heimsókn á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert