David Moyes rekinn

Enska knattspyrnufélagið Manchester United tilkynnti rétt í þessu að knattspyrnustjóranum David Moyes hefði verið sagt upp störfum.

Moyes tók við liðinu síðasta sumar af Alex Ferguson, sem valdi hann sem eftirmann sinn, og United samdi við Moyes til sex ára. Hann entist hinsvegar aðeins 10 mánuði í starfi.

Sá kvittur komst á kreik í gær að Moyes yrði látinn fara, í kjölfarið á ósigrinum gegn Everton í úrvalsdeildinni á páskadag en þá vildu forráðamenn United ekki staðfesta fregnirnar. Þeir hafa nú sent frá sér yfirlýsingu og þar segir m.a.:

„Félagið vill þakka honum sérstaklega fyrir þá miklu vinnu sem hann lagði í starfið, heiðarleika og heilindi."

David Moyes, sem verður 51 árs gamall næsta föstudag, stýrði Everton í ellefu ár og undir hans stjórn komst liðið í Meistaradeildina árið 2005 og lék til úrslita í bikarkeppninni árið 2009. Það kom síðan á daginn að síðasta verkefni hans fyrir United var að stýra liðinu gegn Everton á Goodison Park.

Eftir ósigurinn þar, 2:0, varð endanlega ljóst að United myndi ekki spila í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili. Liðið er í 7. sæti úrvalsdeildarinnar, þrettán stigum á eftir Arsenal sem er í fjórða sætinu og sex stigum á eftir Tottenham sem er í sjötta sætinu.

United hefur tapað sex deildaleikjum á heimavelli í vetur, var slegið út af Swansea í bikarkeppninni og Sunderland í deildabikarnum, og þá féll liðið gegn Evrópumeisturum Bayern München í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Þetta er í fyrsta skipti í 28 ár sem Manchester United segir knattspyrnustjóra upp störfum en þegar það gerðist síðast voru sextán af núverandi leikmönnum liðsins ekki fæddir. Það var Ron Atkinson en honum var sagt upp í nóvember 1986 og Alex Ferguson ráðinn í hans stað.

Frétt mbl.is: Giggs stýrir liði United út leiktíðina

David Moyes er farinn frá Manchester United.
David Moyes er farinn frá Manchester United. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert