Man City enskur meistari

Leikmenn City fagna titlinum.
Leikmenn City fagna titlinum. AFP

Manchester City var rétt í þessu að landa enska meistaratitlinum í knattspyrnu eftir öruggan sigur á West Ham, 2:0. Þetta er annar titill þeirra ljósbláu á síðustu þremur árum.

Fyrir lokaumferðina í dag hafði Liverpool möguleika á titlinum en til þess þurftu þeir að vinna Newcastle stórt og treysta á að West Ham tæki stig af City. Newcastle var yfir í hálfleik en Liverpool kom til baka í þeim síðari og vann þægilegan 2:1-sigur þar sem tveir leikmenn Newcastle fengu rautt spjald.

Sigurinn dugði hins vegar ekki til og titillinn fór til City. Liðið fékk 86 stig en Liverpool 84.

Fylgst var með gangi mála í toppbaráttunni hér á mbl.is

Úrslit toppliðanna:
Liverpool - Newcastle 2:1
(Agger 64., Sturridge 66. - Skrtel sjálfsm. 20.)
Manchester City - West Ham 2:0
(Nasri 40., Kompany 49.)

15:51 Leikjunum er lokið. MAN CITY ER ENSKUR MEISTARI

15:47 Við erum komin í uppbótartíma. City bíður eftir flautinu, þetta er fyrir löngu komið.

15:44 RAUTT Á ANFIELD! Agaleysið hjá Newcastle er náttúrlega brandari. Paul Dummett sem var nýkominn inn sem varamaður fær beint rautt fyrir brot á Suárez. Newcastle tveimur leikmönnum færri og hljóta að vera án knattspyrnustjóra áður en dagurinn er úti.

15:36 Etihad. City-menn eru ekkert að slaka á. Samir Nasri átti nú hörkuskot sem Adrian varði vel. 

15:35 Anfield. Þessar sendingar frá Gerrard eru magnaðar. Nú var Agger rétt að missa af gullsendingu inn á teiginn. Sigur Liverpool er í höfn, tíu mínútur eftir en það verður engu að síður sorg í leikslok í Liverpool-borg.

15:28 Eins og staðan er núna er City með 86 stig og Liverpool 84. Liverpool þarf því að treysta á kraftaverk frá West Ham. Þeir geta allavega gleymt því að Andy Carroll geri einhverjar gloríur því hann var að fara af velli.

15:23 RAUTT Á ANFIELD! Svona á að kveðja uppeldisfélag sitt eða þannig. Shola Ameobi fær rautt spjald í leik sem er sennilega hans síðasti fyrir Newcastle. Hann fékk tvö gul spjöld á örskömmum tíma fyrir væl.

15:22 MARK Á ANFIELD! Staðan er 2:1. HVAÐ ER AÐ GERAST HÉRNA! Alveg eins mark og rétt áðan. Nú var það Daniel Sturridge sem skorar á fjærstönginni eftir aukaspyrnu frá Gerrard.

15:20 MARK Á ANFIELD! Staðan er 1:1. Liverpool hefur jafnað metin. Daniel Agger nær að koma færi í boltann og koma honum inn fyrir línuna á fjærstönginni. 

15:15 Anfield. Liverpool fékk aukaspyrnu rétt utan teigs. Luis Suárez tók hana en rann í skotinu og boltinn endaði í fanginu á Krul.

15:14 Anfield. Fín aukaspyrna inn á teiginn en Skrtel nær ekki til boltans.

15:05 MARK Á ETIHAD! Staðan er 2:0. Það má fara að setja bláa og hvíta borða á bikarinn. Fyrirliðinn Vincent Kompany kemur City í enn vænlegri stöðu með marki af stuttu færi eftir hornspyrnu.

15:04 Anfield. Liverpool byrjar af krafti. Sterling á óvænt skot sem Krul ver.

15:02 Síðari hálfleikur er hafinn.

14:50 Sú tölfræði var að berast að þetta er í fyrsta sinn í 38 leikja deild frá tímabilinu 1914/1915 sem Liverpool fær á sig meira en 50 mörk á tímabili. Það er hreint ótrúlegt að lið með svo mörg mörk fengin á sig hafi enn möguleika á titlinum í lokaumferðinni. Klisjan að sókn vinni leiki en vörn titla smellpassar eins og flís við rass. En hálfleikur - fáum okkur kaffi fyrir lokasprettinn.

14:48 Hálfleikur. Þetta ætlar að verða ansi þægilegt fyrir City. Þeir fara með fimm stiga forskot inn í hálfleikinn og eru einum hálfleik frá öðrum titli sínum á þremur árum.

14:45 Etihad. Zabaleta með fína sendingu fyrir mark West Ham en Agüero nær ekki skallanum á markið. 

14:42 Eins og staðan er núna þurfum við ekki einu sinni að horfa á markatöluna til þess að finna sigurvegara. Nú hefur City 86 stig á móti 81 hjá Liverpool.

14:40 Anfield. Daniel Sturridge með nánast frían skalla af markteig en hittir ekki markið. 

14:39 MARK Á ETIHAD! Staðan er 1:0. Þetta verður ljósblár dagur, það er nánast ljóst. Samir Nasri kemur City yfir á 40. mínútu með hnitmiðuðu skoti í stöng og inn rétt utan teigs.

14:34 Etihad. Man City er búið að vera 75% með boltann fyrsta hálftímann. Stóri Sam er hins vegar með meirapróf og hefur lagt rútunni örugglega í teig sinna manna.

14:33 Anfield. Suárez með laust skot utarlega í teignum, beint í fangið á Krul sem var löngu lagstur. Debuchy fær í kjölfarið gult fyrir að tefja í innkasti. Og já, það er hálftími liðinn.

14:29 Anfield. Aftur kemst Gouffran í ágætt færi áður en Liverpool bjargar. Newcastle er með fimm varnarmenn á vellinum en búið að fá tvö fín færi og skora eitt mark. 

14:27 Anfield. Er Liverpool að missa hausinn? Gouffran kemst nánast einn í gegn en Mignolet ver. Þetta mark hefur komið illa við þá rauðklæddu.

14:25 Etihad. Þrátt fyrir að mega alveg tapa eins og staðan er núna heldur City pressunni gangandi. Kolarov á skot að marki af löngu færi en það er frábærlega varið.

14:23 Anfield. Það er meira líf í Liverpool-borg og stuðni. Daniel Agger með hörkuskalla eftir hornspyrnu en beint í fangið á Tim Krul.

14:21 Anfield. Veik von Liverpool manna varð enn veikari strax eftir 20 mínútna leik. Þeir þurfa aldeilis að rífa sig upp ætli þeir sér að eiga tölfræðilegan möguleika á titlinum því hann er í höndum City eins og staðan er núna.

14:19 MARK Á ANFIELD! Staðan er 0:1. Newcastle kemst yfir gegn Liverpool! Gouffran komst upp að endamörkum vinstra megin, sendi fyrir markið þar sem Martin Skrtel setti boltann í eigið mark!

14:18 Anfield. Liverpool átti aukaspyrnu á hægri kanti, Suárez tók spyrnuna snöggt og meðan Krul var að stilla upp varnarvegg og boltinn söng í netinu. Phil Dowd vildi hins vegar að hann biði eftir flautinu svo markið telur ekki.

14:17 Etihad. Zabaleta tekinn niður innan teigs en ekkert dæmt. City þjarmar vel að West Ham.

14:14 Etihad. David Silva á skot rétt yfir mark West Ham úr fínu færi.

14:10 Anfield. Liverpool heimtar vítaspyrnu þegar Sterling var tekinn niður innan teigs. Við fyrstu sín virtist þetta hins vegar bara góð tækling hjá Debuchy.

14:09 Etihad. Svipað verkefni bíður Man City þar sem West Ham liggur vel til baka og treystir á háa bolta fram á Andy Carroll. 

14:07 Anfield. Það eru tíu leikmenn Newcastle fyrir aftan boltann þegar Liverpool reynir að byggja upp sókn. Það reynir sannarlega á þolinmæði þeirra rauðklæddu í dag. 

14:03 Anfield. Yfir Anfield sveimar flugvél með borða í eftirdragi þar sem á stendur „United 20 - Gerrard 0“ og er vísað til meistaratitla. 

14:00 Leikirnir eru komnir af stað.

13:50 Við munum eftir tímabilinu 2012 þegar City varð meistari, þá var álíka spenna í lokaumferðinni og nú þar sem úrslitin réðust í blálokin. Vonandi verður viðlíka spenna hér í dag.

13:22 Fréttir eru að berast af því að einkennislag West Ham, I'm forever blowing bubbles sé leikið á Anfield þessa stundina enda treystir Liverpool heldur betur á Hamrana í dag.

13:18 Það er vert að geta þess að einnig verður fylgst með hinum leikjunum átta sem fram fara í lokaumferðinni. Beina lýsingu mbl.is má sjá HÉR. 

13:08 Mig grunar að stuðningsmenn Liverpool þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að fá á sig mörk í dag. Í byrjunarliði Newcastle eru fimm varnarmenn og fremstur er Shola Ameobi einn og yfirgefinn. Alan Pardew ætlar sér greinilega að leggja rútunni frægu því hann þarf hagstæð úrslit til þess eins að halda starfinu.

13:02 Jæja nú eru byrjunarliðin klár, við skulum kíkja á þetta.

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Flanagan, Henderson, Gerrard, Allen, Sterling, Suarez, Sturridge.
Varamenn: Jones, Toure, Sakho, Cissokho, Lucas, Coutinho, Aspas.

Newcastle: Krul; S.Taylor, Williamson, Coloccini, Haidara; Debuchy, Anita, Tiote, Gouffran; Sissoko; Shola Ameobi.
Varamenn: Elliot, Santon, Yanga-Mbiwa, Satka, Dummett, Sammy Ameobi, de Jong

---

Manchester City: Hart, Zabaleta, Kompany, Demichelis, Kolarov, Garcia, Toure, Nasri, Silva, Aguero, Dzeko
Varamenn: Pantilimon, Lescott, Clichy, Milner, Fernandinho, Negredo, Jovetic

West Ham: Adrian, Reid, McCartney, Nolan, Tomkins, Carroll, Taylor, Noble, O'Brien, Diame, Downing
Varamenn: Jarvis, Armero, Vaz Te, Collins, Jaaskelainen, C.Cole, J.Cole

12:35 Sergio Agüero hjá Man City hefur verið frá vegna meiðsla en í enskum fjölmiðlum er talað um að hann verði klárir í slaginn í dag. Sömuleiðis snýr Jordan Henderson aftur í lið Liverpool eftir bann, en það kemur allt betur í ljós hér um klukkan 13 þegar byrjunarliðin detta í hús.

12:33 Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er ekki búinn að leggja árar í bát fyrir lokaumferðina í dag; enda engin ástæða til. „Í gegnum tíðina hefur verið stífur mótvindur á okkur en við náð að snúa hlutunum okkur í hag. Einmitt þess vegna höfum við enn möguleika á að verða meistarar. Við munum gefa allt okkar í hlutina þangað til flautað verður til leiksloka.“

12:30 Verið velkomin í beina lýsingu mbl.is þar sem úrslitin ráðast um enska meistaratitilinn. Lokaumferðin er leikin í heilu lagi í dag og verður fylgst með leikjum Liverpool og Manchester City hér en hinum átta í sérfrétt þegar nær dregur þeim.

Pablo Zabaleta fagnar markaskoraranum Samir Nasri.
Pablo Zabaleta fagnar markaskoraranum Samir Nasri. AFP
Shola Ameobi í baráttu við Daniel Agger og Martin Skrtel.
Shola Ameobi í baráttu við Daniel Agger og Martin Skrtel. AFP
Samir Nasri með boltann, en hann kom City yfir gegn …
Samir Nasri með boltann, en hann kom City yfir gegn West Ham. AFP
Leikmenn Newcastle fagna eftir að hafa komist yfir.
Leikmenn Newcastle fagna eftir að hafa komist yfir. AFP
Shola Ameobi stingur sér fram fyrir leikmenn Liverpool.
Shola Ameobi stingur sér fram fyrir leikmenn Liverpool. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert