Moyes hafði landað Kroos - van Gaal stöðvaði ferlið

Toni Kroos í leiknum í gær.
Toni Kroos í leiknum í gær. AFP

Skotinn David Moyes sem var rekinn frá Manchester United eftir hörmulegt gengi á síðustu leiktíð mun hafa unnið að því að fá þýska miðjmanninn Toni Kroos til liðs við sig þegar hann var við stjórnvölinn, en arftaki hans Louis van Gaal virðist hafa stöðvað það ferli.

Viðræður við Kroos og Bayern München gengu það vel að mönnum fannst staðan vera orðin þannig að enska liðið hefði verið búið að tryggja sér þjónustu kappans. Hinn eitilharði  van Gaal virðist þó hafa stoppað þessi kaup og margir velta því nú fyrir sér hvort hann hafi með því gerst sín fyrstu mistök fyrir Manchester liðið.

Kroos hefur spilað frábærlega fyrir Þjóðverja á þessu heimsmeistaramóti og frammistaða hans kristallaðist í leiknum í gær þegar hann var valinn maður leiksins er Þjóðverjar völtuðu yfir Brasilíu 7:1, en Kroos skoraði meðal annars tvö mörk.

Nú virðast hins vegar spænska stórliðið Real Madrid vera líklegast til að fá hann, fari hann á annað borð frá Bæjurum í sumar. Í stað Kroos fengu Manchester menn Ander Herrera frá Athletic Bilbao á 29 milljónir punda. Líklegur verðmiði á Kroos er hins vegar 20 milljónir punda en launatékkinn hjá honum er þó mun stærri.

Það er nokkuð ljóst að van Gaal veit hvers konar leikmaður Kroos er, hafandi þjálfað hann í stjóratíð sinni hjá Bayern München. Það var eftir allt saman van Gaal sem gaf honum fyrsta tækifærið með aðalliði Bæjara. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi ákvörðun van Gaal muni reynast honum dýrkeypt. Kannski veit hann nákvæmlega hvað hann syngur. Tíminn mun leiða það í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert