Newcastle að krækja í Argentínumann

Alan Pardew hefur verið duglegur að kaupa leikmenn í sumar.
Alan Pardew hefur verið duglegur að kaupa leikmenn í sumar. AFP

Enska úrvalsdeildarliðið Newcastle er nálægt því að fá Argentínska framherjann Facundo Ferreyra á láni frá Shakhtar Donetsk í Úkraínu.

Ferreyra er einn af þeim sem vilja ekki snúa aftur til Úkraínu vegna ástandsins þar, og vill fara frá félaginu. Hann er 23 ára gamall og kom til Shakhtar í fyrra, en hann skoraði þá sex mörk í fimm leikjum í byrjunarliði. Áður hafði hann leikið með Vélez í heimalandinu þar sem hann skoraði 16 mörk í 22 leikjum.

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, vill ólmur styrkja sóknarlínu sína, en hann hefur verið duglegur í leikmannakaupum í sumar og þegar fengið til sín sex menn. Ef Ferreyra kemur á láni mun Newcastle hafa forkaupsrétt á honum eftir tímabilið.

Newcastle er einnig fylgjast grannt með stöðu mála hjá Loic Rémy sem féll á læknisskoðun á dögunum, en líkurnar á að hann fari aftur til Newcastle, þar sem hann var á láni í fyrra, eru þó taldar hverfandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert