Gylfi lagði upp sigurmark Swansea

Chelsea og Swansea eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þetta tímabilið. Chelsea vann Leicester 2:0 og Swansea lagði Burnley að velli, 1:0.

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp eina mark leiksins í sigri Swansea með frábærri stungusendingu á Nathan Dyer í fyrri hálfleik.

Chelsea gekk illa að brjóta ísinn gegn Leicester en Diego Costa skoraði fyrra markið eftir rúmlega klukkutíma leik eftir sendingu Branislav Ivanovic. Costa hefur þar með skorað í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni. Eden Hazard bætti við öðru marki eftir sendingu Cesc Fábregas korteri fyrir leikslok.

West Ham vann Palace

West Ham vann Crystal Palace af öryggi, 3:1, á útivelli. Mauro Zárate, Stewart Downing og Carlton Cole skoruðu mörk Hamranna en Marouane Chamakh fyrir Palace.

Loks gerðu Southampton og WBA markalaust jafntefli í Southampton.

Fylgst er með öllu sem gerist í enska boltanum í dag í ENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is. Lokaleikur dagins er stórleikur Everton og Arsenal í Liverpool-borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert