Liverpool fór illa með Tottenham

Fyrirliðinn Steven Gerrard fagnar marki í dag ásamt Daniel Sturridge.
Fyrirliðinn Steven Gerrard fagnar marki í dag ásamt Daniel Sturridge. AFP

Tveimur leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en fylgst er með öllu í enska boltanum í ENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is

Tottenham tók á móti Liverpool í stórleik dagsins þar sem Mario Balotelli fór beint í byrjunarliðið hjá gestunum. Hann fékk nokkur úrvalsfæri í fyrri hálfleik án þess að skora, en Liverpool var engu að síður með forystu í hálfleik eftir að Raheem Sterling kom þeim yfir snemma leiks.

Síðari hálfleikurinn var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar Steven Gerrard tvöfaldaði forskot Liverpool með marki úr vítaspyrnu eftir að gripið hafði verið í Joe Allen innan teigs. Það var svo spænski bakvörðurinn Alberto Moreno sem skoraði þriðja markið á 60. mínútu eftir flottan sprett, og Liverpool í vænlegri stöðu.

Ekki var meira skorað, lokatölur 3:0 fyrir Liverpool.

Aston Villa vann svo góðan sigur á Hull á heimavelli sínum. Gabriel Agbonlahor kom Villa-mönnum yfir á 14. mínútu eftir undirbúning Andreas Weimann, en hann skoraði einmitt annað markið á 36. mínútu.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok minnkaði Hull muninn þegar Aly Cissokho skoraði sjálfsmark, og því von á fjörugum lokakafla. Hull pressaði stíft í lokin en allt kom fyrir ekki, 2:1-sigur Aston Villa staðreynd.

Smellið á ENSKI BOLT­INN Í BEINNI til að fara inn í beinu lýs­ing­una.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert