Gylfi lagði upp tvö - Liverpool vann

Leikmenn Liverpool fagna marki Adam Lallana í dag.
Leikmenn Liverpool fagna marki Adam Lallana í dag.

Enska úrvalsdeildin hélt áfram að rúlla í dag með sex leikjum en fimm þeirra er nú lokið. Gylfi Þór Sigurðsson hélt áfram frábærri spilamennsku sinni fyrir Swansea og lagði upp bæði mörk liðsins í 2:2 jafntefli gegn Newcastle.

Gylfi Þór Sigurðsson var á sínum stað í byrjunarliðinu og átti frábæran leik fyrir Walesverjana. Fyrra markið kom eftir gott spil Wilfried Bony á 17. mínútu og sending Gylfa þræddi síðan Wayne Routhledge í gegn á 50. mínútu. Í bæði skiptin jafnaði hins vegar Papisse Cisse metin fyrir Newcastle, lokatölur 2:2.

Liverpool hafði betur gegn W.B.A., 2:1 en undanfarnar vikur hafa ekki verið nægilega góðar hjá Liverpool.

Það vakti athygli að Mario Balotelli var settur á varamannabekk Liverpool og í hans stað kom Rickie Lambert.

Fyrsta mark leiksins skoraði Adam Lallana eftir frábæran þríhyrning við Jordan Henderson sem lagði boltann á Lallana með hælnum. Skot hans fór í fjærhornið, óverjandi fyrir Ben Foster í marki W.B.A.

West Bromwich menn jöfnuðu metin á 56. mínútu úr vítaspyrnu eftir að Dejan Lovren braut af sér. Brotið átti sér hins vegar stað greinilega fyrir utan vítateig. Saido Berahino fór engu að síður á punktinn og skoraði af öryggi.

Jordan Henderson tryggði hins vegar Liverpool stigin þrjú á 61. mínútu með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið eftir sendingu frá Raheem Sterling, sem vildi örfáum andartökum áður fá vítaspyrnu. Lokatölur 2:1.

Úrslit dagsins:
2:1 Liverpool – W.B.A.
2:2 Swansea – Newcastle
2:0 Hull City – Crystal Palace
3:0 Sunderland – Stoke
2:1 Leicester – Burnley
16.30 Aston Villa – Manchester City

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert