Fowler: Vil ekki að Gerrard fari

Steven Gerrard á æfingu hjá Liverpool.
Steven Gerrard á æfingu hjá Liverpool. AFP

Robbie Fowler, fyrrverandi leikmaður Liverpool sem skoraði 171 mark fyrir félagið á sínum tíma, segir að hann vilji ekki sjá að félagið láti Steven Gerrard fara að þessu keppnistímabili loknu.

Gerrard hefur gefið til kynna að hann muni ekki leggja skóna á hilluna næstum því strax og ef ekki verði not fyrir sig á Anfield á næsta tímabili muni hann fara eitthvert annað.

„Ég dái Steven Gerrard og vil endilega að hann verði áfram hjá Liverpool. Hann er alveg eins og Ryan Giggs hjá Manchester United, nýir leikmenn hjá félaginu taka strax flugið, bara við það að sjá Gerrard. Hann er kannski ekki alveg eins góður og þegar hann var uppá sitt besta, en hann er enn frábær leikmaður," sagði Fowler við BBC.

„Tilfinning flestra er sú að hann muni fara erlendis ef hann yfirgefur Anfield, en verði hann á lausu er ég viss um að mörg lið í úrvalsdeildinni vildu fá hann, því hann er enn það góður," sagði Robbie Fowler.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert