Biður um hjálp við leit að leikmanni sínum

Nile Ranger í búningi Newcastle þar sem hann náði ekki …
Nile Ranger í búningi Newcastle þar sem hann náði ekki að heilla menn. NUFC

Lee Clark, knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Blackpool hefur beðið almenning um hjálp við að finna leikmann sinn sem hefur ekki mætt til æfinga síðustu tvær vikurnar.

Leikmaðurinn sem um ræðir, Nile Ranger, er þekktur fyrir að koma sér í vandræði. Hann var talinn mikið efni og spilaði nokkra leiki með Newcastle United áður en hann var rekinn vegna agavandamála. Síðastliðið vor var hann einnig látinn fara frá Swindon eftir að hafa komið sér í vandræði.

Nú virðist hann enn á ný vera kominn í bobba og Clark sá ástæðu til þess að lýsa eftir honum í fjölmiðlum. „Ef einhver getur látið okkur vita hvar hann er niðurkominn má viðkomandi senda mér skilaboð og við tökum á málunum,“ sagði Clark.

„Ég hef ekki séð hann í tvær vikur og veit ekkert hvar hann er. Hann hefur verið beðinn um að mæta á æfingar og í leiki en enginn hefur séð hann.“

Ranger hefur oft komið sér í fjölmiðla fyrir eitthvað annað en knattspyrnuhæfileika, meðal annars eftir að hafa fengið sér húðflúr á innanverða neðri vörina og þá hefur hann verið kærður fyrir óspektir á almannafæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert