Rýr uppskera Íslendingaliðanna

Eiður Smári Guðjohnsen var í fyrsta sinn í tapliði með …
Eiður Smári Guðjohnsen var í fyrsta sinn í tapliði með Bolton eftir endurkomuna þangað. Ljósmynd/bwfc.co.uk

Íslendingaliðin þrjú sem voru á ferðinni í ensku B-deildinni í knattspyrnu í dag uppskáru samtals aðeins eitt stig og Bolton mátti sætta sig við fyrsta ósigurinn í níu leikjum í deildinni.

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði fyrstu 80 mínúturnar með Bolton sem sótti Huddersfield heim. Bolton var lengi vel líklegra liðið en Huddersfield náði að tryggja sér sigurinn, 2:1, með marki undir lok leiksins. Eiður var óheppinn að skora ekki í leiknum en markvörður Huddersfield  varði glæsilega frá honum úr dauðafæri.

Emile Heskey kom inná í öðrum leik sínum með Bolton og náði að koma  boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Bolton er í 15. sæti deildarinnar með 29 stig en hefði með sigri komist í tíunda sætið.

Kári Árnason og félagar í Rotherham urðu að sætta sig við jafntefli, 1:1, gegn Blackpool á útivelli þrátt fyrir að vera mun sterkari aðilinn. Blackpool jafnaði skömmu fyrir leikslok. Kári spilaði allan leikinn. Rotherham er í 19. sæti af 24 liðum með 26 stig, sex stigum fyrir ofan fallsæti.

Aron Einar Gunnarsson lék fyrstu 62 mínúturnar með Cardiff sem lá á heimavelli, 2:4, gegn Watford. Cardiff er í 12. sæti deildarinnar með 31 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert