Magnað mark og rautt spjald Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson þrumar boltanum í mark Blackburn í leiknum …
Gylfi Þór Sigurðsson þrumar boltanum í mark Blackburn í leiknum í dag. Ljósmynd/@SwansOfficial

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði stórglæsilegt mark en var svo rekinn af velli undir lokin þegar Swansea City tapaði 3:1 fyrir B-deildarliðinu Blackburn Rovers í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag.

Leikmenn Swansea voru manni færri frá 6. mínútu þegar Kyle Bartley fékk rauða spjaldið en Gylfi kom þeim samt yfir með stórglæsilegu skoti af 25 m færi, sem sjá má í lýsingunni hér fyrir neðan.

Chris Taylor jafnaði strax fyrir B-deildarlið Blackburn sem tryggði sér svo sigur þegar Rudy Gestede og Craig Conway skoruðu á lokakafla leiksins. Gylfi fékk rauða spjaldið á 90. mínútu fyrir að brjóta illa á Taylor.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. LEIK LOKIÐ - Swansea er fallið úr bikarnum og Gylfi er kominn í bann.

90. RAUTT SPJALD - Nú er Gylfi Þór Sigurðsson rekinn af velli fyrir brot á Chris Taylor. Leikmenn Swansea orðnir níu. Pat Nevin hjá BBC er jafn harðorður í garð Gylfa núna og hann var jákvæður eftir glæsimark hans fyrr í leiknum. „Heimskulegt. Algjörlega fáránlegt hjá Gylfa. Heimsklet brot og nú fær hann beint rautt spjald og missir af næstu leikjum," segir Nevin.

86. MARK - 3:1. Þá er þetta væntanlega búið. Craig Conway skorar þriðja mark Blackburn með langskoti. Lukasz Fabianski hefði átt að gera betur í marki Swansea en boltinn fer undir hann og í markið.

83. Gylfi Þór Sigurðsson leggur upp færi fyrir Angel Rangel með frábærri sendingu í gegnum vörn Blackburn en varnarmaður nær að kasta sér fyrir bakvörðinn og loka á skot hans.

78. MARK - 2:1. Nú syrtir í álinn fyrir 10 leikmenn Swansea. Rudy Gestede, sem kom inná sem varamaður í seinni hálfleiknum, kemur Blackburn yfir eftir hornspyrnu.

62. Norski framherjinn Joshua King er farinn af velli hjá Blackburn og það hlýtur að vera léttir fyrir varnarmenn Swansea því hann er búinn að vera stórhættulegur í dag. Jefferson Montero kantmaðurinn fljóti frá Ekvador, var að koma inná hjá Swansea en hann hefur verið frá vegna meiðsla síðan á nýársdag.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur og staðan er 1:1. Stórglæsilegt mark Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem sjá má hér fyrir neðan, kom Swansea yfir en Blackburn jafnaði strax. Swansea hefur verið manni færri frá því á 6. mínútu þegar Kyle Bartley fékk rauða spjaldið.

22. MARK - 1:1. Mark Gylfa skildi liðin ekki lengi að. Strax í næstu sókn jafnar Chris Taylor fyrir heimamenn í Blackburn! Fyrirgjöf frá endalínu, Tom Cairney skallar boltann á Taylor sem skorar. 

21. MARK - 0:1. Tíu Swanseamenn komnir yfir og enginn annar en Gylfi Þór Sigurðsson sem skorar! Vörumerki Gylfa - þrumufleygur af 25 metra færi, gjörsamlega óverjandi! „Þið sjáið varla betra mark. Þegar menn spyrna af svona krafti ver enginn markvörður og þá skiptir engu máli hve margir leikmenn eru í hvoru liði," segir Pat Nevin fyrrverandi leikmaður Chelsea og skoska landsliðsins, í lýsingu BBC.

9. Innáskipting hjá Swansea til að bregðast við rauða spjaldinu. Federico Fernández kemur í vörn velska liðsins en Tom Carroll er tekinn af velli. Stutt gaman hjá honum í dag!

6. RAUTT SPJALD. Slæm byrjun hjá Swansea. Kyle Bartley brýtur á Josh King sem er sloppinn innfyrir vörn liðsins. Beint rautt spjald - þetta verður erfiður leikur fyrir Gylfa og félaga! Sjöunda rauða spjaldið sem leikmenn Swansea fá á þessu keppnistímabili.

1. Leikurinn er hafinn.

Swansea er í 9. sæti úrvalsdeildarinnar en Blackburn Rovers er í 10. sæti B-deildarinnar.

Blackburn: Eastwood, Henley, Duffy, Kilgallon, Olsson, Taylor, Lowe, Williamson, Conway, Cairney, King.

Swansea: Fabianski, Rangel, Bartley, Amat, Tiendalli, Carroll, Shelvey, Dyer, Sigurdsson, Barrow, Gomis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert