Villa ljón í vegi Liverpool

Fagnar Liverpool á sunnudaginn?
Fagnar Liverpool á sunnudaginn? AFP

Síðari undanúrslitaleikur ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu fer fram á sunnudaginn klukkan 14.00 þegar Liverpool og Aston villa eigast við. Bæði lið unnu síðustu leiki sína í deildinni og koma væntanlega full sjálfstrausts í leikinn.

Liverpool eru í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en þeir sigruðu Newcastle 2:0 á mánudagskvöldið. Poolarar sigruðu Wimbledon 2:1 á útivelli í 3. umferð bikarkeppninnar. Liðið þurfti tvo leiki til að slá Eið Smára og félaga Bolton úr leik í 4. umferðinni. Fyrri leiknum á Anfield lyktaði með markalausu jafntefli en Liverpool sigraði síðari leikinn 2:1, með glæsimarki frá Coutinho undir lokinn.

Í 16-liða úrslitunum sigraði Liverpool Crystal Palace 2:1 á útivelli, eftir að hafa lent marki undir í upphafi leiks, og í 8-liða úrslitum þurfti liðið tvo leiki til að leggja B-deildarlið Blackburn að velli. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli á Anfield en Coutinho tryggði liðinu frá Bítlaborginni 1:0 sigur í seinni leiknum og sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar.

Flestir leikmenn Liverpool eru klárir í slaginn fyrir sunnudaginn, þar með talinn varnarmaðurinn Martin Skrtel sem hefur afplánað þriggja leikja bann. Brendan Rodgers sagði þó að það ríkti óvissa með hvort framherjinn Daniel Sturridge gæti leikið og varnarmaðurinn Mamadou Sakho er frá keppni í nokkrar vikur vegna meiðsla.

Miðjumaðurinn Joe Allen segir svona stórleiki ástæðuna fyrir því að hann gekk í raðir Liverpool. „Draumurinn er vera í baráttunni á öllum vígstöðvum og vinna bikara.“ Allen veit þó að Villa liðið hefur verið að spila vel upp á síðkastið. „Þeir náðu frábærum úrslitum um síðustu helgi og verða klárir í slaginn. Þetta verður vonandi skemmtilegur leikur á sögufrægum velli,“ sagði Joe Allen.

Aðeins leikið á heimavelli í bikarnum

Aston Villa lagði Blackpool, 1:0, í 3. umferð bikarkeppninnar. Í 4. umferð sigraði Villa Bournemouth 2:1 á heimavelli sínum Villa Park. Lokatölurnar urðu þær sömu í 16-liða úrslitum þegar Villa lagði Leicester á heimavelli. Í 8-liða úrslitum lögðu Villa-menn WBA 2:0 á heimavelli og hefur Aston Villa því spilað alla bikarleiki sína á Villa Park hingað til.

Hjá Villa eru flestir klárir í bátana á sunnudaginn. Carlos Moreno tekur þó út leikbann vegna rauðs spjalds sem hann hlaut í leik liðsins gegn Tottenham um síðastliðna helgi og varnarmaðurinn Ciaran Clark er meiddur á hné. Tim Sherwood, stjóri Birmingham liðsins, er bjartsýnn á að Gabriel Agbonlahor verði búinn að hrista af sér meiðsli sem hann hlaut í síðasta leik. 

Fyrrverandi leikmaður Liverpool, Chelsea og West Ham, Joe Cole, er bjartsýnn og segir að allt sé mögulegt í fótbolta. „Draumurinn er að vinna bikarinn í maí sem væri magnað afrek.“ Cole, sem vann enska bikarinn þrisvar sem leikmaður Chelsea, vill að leikmenn Villa mæti klárir í leikinn á sunnudaginn. „Þessir leikir snúast um að vera andlega tilbúnir, sem ég er viss um að strákarnir verða. Þetta er sérstakur leikur og við verðum að vera klókir en það er ekkert sem við þurfum að óttast,“ sagði Joe Cole.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka