Rodgers skoðar framherja í sumar

Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool telur að liðið sakni ennþá sárlega framherja liðsins, Luis Suárez og Daniel Sturridge, sem voru svo frábærir á síðustu leiktíð.

Suárez hvarf á braut til Barcelona á meðan Daniel Sturridge hefur verið fjarri góðu gamni vegna meiðsla stóran hluta núverandi tímabils.

„Það hjálpar ekki liðinu að taka  52 mörk af þeim,“ sagði Rodgers eftir leik gegn WBA í dag við Liverpool Echo en honum fannst leikmenn liðsins spila frábærlega.

„Við skorum bara ekki jafn mörg mörk (á þessari leiktíð), svo einfalt er það. Við höfðum tvo leikmenn á síðasta ári sem voru fremstir og skoruðu meira en 50 mörk. Við höfum það ekki (núna),“ sagði Rodgers.

Liverpool skorað 101 mark á síðustu leiktíð en hingað til, eftir 33 leiki, eru mörkin aðeins 47. Á fyrstu leiktíð Rodgers með liðið skoraði Liverpool 71 mark.

Rodgers segir þessi vandræði liðsins fram á við verða þess valdandi að hann muni leita að framherja í sumar.

„Þetta er þriðja tímabilið mitt hérna og mörkin hafa bara orðið fleiri. En þetta (sóknarleikurinn) er svæði sem við munum huga að í sumar,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert