Mourinho gerði grín að keppinautunum

José Mourinho gerði Chelsea að Englandsmeistara af miklu öryggi.
José Mourinho gerði Chelsea að Englandsmeistara af miklu öryggi. AFP

José Mourinho sló á létta strengi á lokahófi Englandsmeistara Chelsea í vikunni og nýtti tækifærið til að skjóta léttum skotum á helstu keppinauta liðsins á Englandi.

„Í fyrra höfnuðum við í 3. sæti og vorum ekki sáttir en við sýndum meisturunum virðingu þó að við höfum unnið þá í báðum innbyrðis leikjunum. Þeir áttu skilið að verða meistarar. Við sögðum líka að liðið í 2. sæti ætti það skilið, þó að við höfum einnig unnið það lið tvisvar.“ Þetta voru upphafsorð ræðunnar hjá Mourinho sem hóf svo að skjóta á Manchester-liðin og Arsenal, með hjálp myndbanda sem birtust á skjá.

Man. Utd vildi ekki nota mörk

Fyrsta myndbandið sýndi lið í rauðum búningum, mörkin á vellinum gufuðu upp og liðið spilaði boltanum á milli sín án þess að sækja eða verjast. Greinilegt var að Mourinho beindi spjótum sínum að Manchester United en Chelsea vann leik liðanna 1:0 í apríl þó að United væri 70% leiksins með boltann:

„Það var eitt lið sem vildi spila án þess að notast við mörk. Það lið spilar mjög vel, heldur boltanum frábærlega, en það eru engin mörk. Þeir báðu FIFA um að leikurinn yrði svona en var sagt að það væri ekki hægt. Menn gætu ekki unnið leiki með því að halda boltanum betur.“

Man. City vildi nota eitt mark

Næst mátti sjá lið í bláum búningum skora fjölda marka en á sama tíma fór markið sem liðið átti að verja út í buskann. Manchester City var næst í röðinni, liðið sem skoraði 10 mörkum meira en Chelsea en fékk fleiri mörk á sig en nokkurt hinna liðanna í efstu fjórum sætunum:

„Þetta lið var ekki eins róttækt og vildi fá að spila með eitt mark. Þeir voru frábærir, skoruðu fjölda marka hvaðanæva af vellinum, en fengu aldrei á sig mark því þeir voru ekki með neitt mark sín megin. Aftur sagði FIFA að þeir gætu ekki orðið meistarar því það þarf að nota tvö mörk,“ sagði Mourinho.

Arsenal vildi spila frá janúar fram í apríl

Þá var komið að Arsenal, sem var í 8. sæti deildarinnar um miðjan nóvember en tapaði aðeins þremur leikjum frá 1. janúar og endaði í 3. sæti:

„Þriðja liðið vantaði lítið upp á. Þeir vildu nota tvö mörk á vellinum, skoruðu nokkur mörk og fengu nokkur á sig en þeir voru frábærir. Þeir skoruðu stórglæsileg mörk. Þeir báðu FIFA hins vegar um að aðeins yrði spilað frá janúar og fram í apríl. Þeim var tjáð að mótið yrði að vera frá ágúst og fram í maí,“ sagði Mourinho.

Chelsea ekki notið sannmælis

Loks birtist myndband af bláu liði sem vísaði til Chelsea. Liðið sást skora mörk á öðrum enda vallarins, en á hinum endanum keyrði rúta inn og fyllti upp í markið til að verjast andstæðingunum. Margir hafa gagnrýnt Chelsea fyrir „leiðinlega“ spilamennsku og að „leggja rútunni“ í sumum leikjum, þ.e.a.s. að verjast aftarlega með marga menn við eigin vítateig.

„Að endingu kom lið sem vildi spila samkvæmt hefðbundnum reglum. Þeir vissu að til að vinna þyrfti að skora fleiri mörk en hinir. Þeir unnu leiki bæði með því að skora nokkur mörk en fá færri á sig, og með því að skora eitt mark en halda markinu hreinu. Þeir spiluðu frá ágúst og fram í maí og stundum tóku þeir rútuna með sér,“ sagði Mourinho, og bætti við:

„Ég tel að leikmenn mínir hafi ekki fengið þá virðingu sem þeir eiga skilið eftir það sem þeir hafa gert frá fyrsta degi til þess síðasta.“

Mourinho vill að leikmenn sínir fái meiri virðingu fyrir sína …
Mourinho vill að leikmenn sínir fái meiri virðingu fyrir sína frammistöðu í vetur. AFP
John Terry átti hugsanlega sína bestu leiktíð í vetur, undir …
John Terry átti hugsanlega sína bestu leiktíð í vetur, undir stjórn Mourinho. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert