„Skúringafólkið stal medalíunum“

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, leiðir sína menn í úrslitaleik FA-bikarsins á Wembley í dag, þar sem liðið mætir Aston Villa. Arsenal vann þennan titil á síðasta ári þegar liðið lagði Hull, 3:2, eftir að hafa lent 2:0 undir eftir tíu mínútur.

„Það var algjör martröð og ég kenndi mikið í brjósti um stuðningsmennina sem komu á völlinn fullir vonar. En við vorum allir tilbúnir að berjast til enda,“ sagði Wenger, en þetta var fimmti titill Arsenal í þessari keppni undir hans stjórn.

Wenger getur orðið eini stjórinn frá stríðslokum sem vinnur þessa keppni sex sinnum, en hann segist þó sjálfur ekkert hrifinn af verðlaunum og hefur til að mynda ekki hugmynd um hvar hinir fimm verðlaunapeningar sínir eru niðurkomnir.

„Ég hef ekki hugmynd, ef einhver bæði mig um að sýna þá eða einhver önnur verðlaun, þá hef ég ekki hugmynd um þau,“ sagði Wenger og gat heldur ekki sagt til um hvort verðlaunin væru þó á öruggum stað.

„Nei, skúringafólkið sem þrífur hjá mér hefði alveg eins getað verið búið að taka þau fyrir löngu og ég mundi ekkert vita. Ég hef gefið sum verðlaunin til góðgerðarmála og slíkt, en ég er enginn safnari heldur einbeiti mér að því sem er næst á dagskrá,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert