Di Maria í læknisskoðun i Doha

Angel Di Maria við komuna í Doha þar sem hann …
Angel Di Maria við komuna í Doha þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Paris Saint Germain. Ljósmynd / sulaiti / Instagram

Svo virðist sem bundinn hafi verið endir á þráfaldlegan orðróm sem uppi hefur verið þess efnis að argentínski vængmaðurinn Angel Di Maria sé á leið frá Manchester United til Paris Saint Germain.

Myndir náðust af Di Maria í Doha í gær þar sem hann er í þeim erindagjörðum að undirgangast læknisskoðun hjá læknum franska félagsins og ganga í kjölfarið frá félagaskiptum.

Kaupverðið á Di Maria er talið vera 44 milljónir punda, en Manchester United greiddi 59,7 milljónir punda þegar þeir keyptu hann frá Real Madrid síðastliðið haust. 

Di Maria fékk lengra sumarfrí en aðrir leikmenn Manchester United vegna þátttöku hans í Suður-Ameríkubikarnum. Di Maria fór hins vegar full frjálslega með það leyfi og skilaði sér ekki til Bandaríkjanna í æfingaferð liðsins eins og til hans var ætlast.

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United, var allt annað en sáttur með þessa háttsemi Argentínumannsins og sektaði hann um tveggja vikna laun. Nú virðist sem Di Maria muni ekkert skila sér yfir höfuð úr sumarfríinu og mæla sér þess í stað mót við leikmannahóp Paris Saint Germain.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert