Adebayor fékk ekki merki frá Guði

Emmanuel Adebayor er áfram í herbúðum Tottenham.
Emmanuel Adebayor er áfram í herbúðum Tottenham. AFP

Sóknarmaðurinn Emmanuel Adebayor yfirgaf ekki enska knattspyrnufélagið Tottenham áður en félagskiptaglugginn lokaði vegna þess að hann fékk ekki merki frá Guði þess efnis. Þetta kemur fram í frétt The Telegraph.

Framtíð Tógómannsins er í lausu lofti en Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, lætur hann æfa með U-21 árs liðinu og segir að hann muni aldrei aftur leika fyrir aðallið Tottenham. 

Adebayor á að hafa skrifað undir ógildingu á samningi sínum við Tottenham í gær og leit þá allt út fyrir að hann myndi ganga til liðs við Aston Villa. Honum snérist hins vegar hugur á síðustu stundu og verður þar með áfram í herbúðum Tottenham, án þess þó að spila fótbolta.

Það leit út fyrir að Adebayor myndi ganga til liðs við Aston Villa í lok júlí en hann hætti við það á síðustu stundu. Hann ráðfærði sig við prestinn sinn á þeim tíma og ákvað að flytja ekki frá London til Birmingham.

Það er því líklegt að Adebayor spili ekki mínútu með Tottenham fram í janúar og fái 100.000 pund á viku fyrir. Síðan verður að koma í ljós hvort hann hugsi sér til hreyfings þegar félagskiptaglugginn opnar aftur á nýju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert