„Hann skoraði 11 mörk í frönsku 1. deildinni“

Wenger keypti ekki útleikmann í sumar.
Wenger keypti ekki útleikmann í sumar. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að kaup Manchester United á Ant­hony Martial sýni hversu brjálaður markaðurinn er orðinn. Frakkinn segist hafa heimildir fyrir því að Martial gæti kostað United 59 milljónir punda (80 milljónir evra) standist ákveðin skilyrði um spilamennsku Martial.

Wenger gagnrýndi einnig eigin stuðningsmenn sem eru sumir hverjir reiðir vegna þess að Arsenal keypti ekki útspilara í sumar. Segir hann kaup United til marks um erfiðleika á markaði en Martail er 19 ára og hefur skorað 11 mörk í frönsku 1. deildinni.

„Það sem gerðist í gær lýsir þessu ágætlega. Monaco seldi Martial fyrir 80 milljónir evra en hann skoraði 11 mörk í frönsku 1. deildinni. Það vantar því ekki fjármagn eða löngun til að kaupa leikmenn. Ég tel að það vanti leikmenn sem geti styrkt sterkustu liðin,“ sagði Wenger.

„Vandamálið er að það vantar leikmenn sem maður getur fullvissað sig um að styrki liðið. Þessi kaup eru ágætt dæmi um þetta,“ bætti Wenger við.

Hann efast þó ekki um hæfileika Martial. „Strákurinn hefur mikla hæfileika. Fjárfestingin er rosalega og hún sýnir að það eru ekki margir leikmenn sem geta styrkt bestu liðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert