Lukaku kom, sá og sigraði

Romelu Lukaku skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í …
Romelu Lukaku skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 2:3 sigri Everton á WBA. Hann reyndist hetja liðsins ásamt Gerard Deulofeu sem lagði upp bæði mörk Lukaku. AFP

Everton vann ótrúlegan 3:2 sigur á WBA á The Hawthorns-leikvanginum í lokaleik 7. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en Everton lenti tveimur mörkum undir áður en belgíski framherjinn, Romelu Lukaku, tók málin í sínar hendur.

Ross Barkley fékk fyrsta hættulega færi leiksins en það kom á 29. mínútu. Gerard Deulofeu kom þá með laglega sendingu inn í teig en Barkley misreiknaði sig eitthvað og hitti ekki boltann - dauðafæri hjá gestunum.

Saido Berahino ákvað að refsa Everton fyrir að klúðra færinu á 41. mínútu. Ramiro Funes Mori missti boltann vinstra megin í vörninni en hann barst þó til Gareth Barry sem tókst á einhvern ótrúlegan hátt að missa hann til James Morrison. Hann átti frábæra sendingu inn á Berahino sem kom boltanum yfir Tim Howard í markinu.

Everton reyndi hvað það gat til að jafna undir lok fyrri hálfleiks en það tókst ekki. Craig Dawson bætti við öðru marki fyrir WBA í byrjun síðari hálfleiks. Chris Brunt átti þá hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Dawson sem gat ekki annað en komið boltanum í netið.

Gestirnir voru í hræðilegri stöðu en það átti eftir að breytast fljótt. Lukaku og Deulofeu tóku málin í sínar hendur en tveimur mínútum síðar minnkaði Lukaku muninn eftir fyrirgjöf Deulofeu. Góður skalli hjá Lukaku sem Howard tókst ekki að verja.

Arouna Kone jafnaði metin á 75. mínútu eftir frábæra stungusendingu Lukaku en Kone setti boltann vinstra megin við Howard sem gat ekkert gert. Everton fullkomnaði síðan endurkomuna á 84. mínútu er Deulofeu átti fyrirgjöf sem rataði á Lukaku. Belgíska nautið náði að taka við boltanum áður en hann fylgdi á eftir með skoti.

Rickie Lambert fékk fullkomið tækifæri til að jafna leikinn tveimur mínútum síðar en hann var þá ný kominn inná sem varamaður. Skot hans fór þó rétt framhjá markinu. Leikmenn Everton gátu hæglega bætt við fleiri mörkum undir lok leiks en alltaf tókst þeim að klúðra færunum á ævintýranlegan hátt.

Lokatölur í dag því 2:3 Everton í vil. Everton er í 5. sæti með 12 stig á meðan WBA er í 15. sæti með 8 stig.

Leik lokið. 3:2 sigur Everton staðreynd. Þvílíkur síðari hálfleikur. Við fengum fimm mörk, það kalla ég veislu og Romelu Lukaku sá um þetta allt saman.

87. RICKIE LAMBERT!! Hann var að koma inná og var nálægt því að jafna fyrir WBA. Fékk boltann í teignum en skot hans fór rétt framhjá markinu.

84. MARK! WBA 2:3 Everton. LUKAKU!!!! Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast. Deulofeu kemur með fyrirgjöf frá hægri vængnnum og Lukaku kemst í boltann áður en hann klárar af stuttu færi. Þetta er lygilegt!

75. MARK! WBA 2:2 Everton. AROUNA KONE AÐ JAFNA!! Lukaku lagði boltann snyrtilega inn á Kone sem var kominn einn gegn Howard og hann gat ekki annað en komið knettinum vinstra megin við hann og í netið. Jafn leikur!

56. MARK! WBA 2:1 Everton. HVAÐ ER AÐ GERAST? Romelu Lukaku er að minnka muninn með skalla eftir fyrirgjöf Gerard Deulofeu. Þetta er leikur!

54. MARK! WBA 2:0 Everton. CRAIG DAWSON MEÐ SKALLA! Chris Brunt tók hornspyrnuna sem rataði  beint á kollinn á Dawson sem gat ekki annað en komið knettinum í netið. Þetta er brekka fyrir Everton.

53. Þarna skall hurð nærri hælum!! Darren Fletcher með skalla sem fer þvert fyrir markið en boltinn fer af varnarmanni og í horn.

46. Síðari hálfleikur er farinn af stað.

Hálfleikur. Berahino með eina mark leiksins til þessa eftir hræðileg varnarmistök. Búið að vera nokkuð jafn leikur. James Morrison búinn að vera hvað hættulegastur í liði WBA en það er nóg eftir.

45. Gestirnir reyna hvað þeir geta til að jafna fyrir hálfleik en það er ekki að ganga upp. Mér sýnist WBA fara inn í hálfleikinn með eins marks forskot.

41. MARK!! WBA 1:0 Everton. SAIDO BERAHINO AÐ SKORA!! Þetta var einn lélegasti varnarleikur tímabilsins. Mér sýndist þetta var Brendan Galloway sem missti boltann í vinstri bakverðinum en Gareth Barry náði boltanum. Ömurleg sending hans komst á leikmann WBA sem stakk boltanum inn á Berahino sem kom boltanum yfir Howard í markinu.

29. BARKLEY!! Frábær sending frá Gerard Deulofeu inn í teiginn og þar var Ross Barkley einn og óvaldaður en hann hitti ekki boltann. Þarna á hann að gera betur, það er ljóst.

21. Þetta er slakur leikur til þessa. Hann er jafnvel verri en leikur Watford og Crystal Palace í gær en ég vona bara það besta. Við viljum fá markaveislu!

8. James Morrison með hörkuskot fyrir utan teig! Tim Howard var að vísu ekki í miklum vandræðum með þetta en engu að síður gott skot.

1. Leikurinn er kominn af stað.

0. Hér fyrir neðan má sjá byrjunarlið beggja liða.

WBA: Myhill, Olsson, Yacob, Evans, Morrison, Brunt, McClean, Berahino, Fletcher, Dawson, Rondon.
Bekkur: Lindegaard, Chester, Gardner, Anichebe, Lambert, McManaman, Gnabry.

Everton: Howard, Galloway, Funes Mori, Jagielka, Browning, McCarthy, Barry, Barkley, Deulofeu, Naismith, Lukaku.
Bekkur: Robles, Gibson, Oviedo, McGeady, Osman, Lennon, Kone.

Leikmenn Everton fagna í kvöld.
Leikmenn Everton fagna í kvöld. AFP
Saido Berahino fagnar marki sínu í kvöld en hann fagnaði …
Saido Berahino fagnar marki sínu í kvöld en hann fagnaði þó ekki lengi. AFP
Craig Dawson fagnar skallamarki sínu í kvöld.
Craig Dawson fagnar skallamarki sínu í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert